138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

úrskurður ráðherra um suðvesturlínu.

[13:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þá höfum við það. Það er allt í lagi að brjóta lögin ef þau eru bara brotin smá, það er það sem hæstv. umhverfisráðherra segir hér. Það er allt í lagi að fara fram yfir af því að þetta eru bara fjórir dagar. Það er allt í lagi að þetta tefjist aðeins vegna þess að tafir valda ekki ógildingu. Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að ráðherrar í stjórnsýslunni geti tekið ákvörðun hvenær sem er um að afturkalla hvað sem er bara vegna þess að þeim sýnist svo? Nei, að sjálfsögðu ekki. Það eru lögbundnir frestir í lögum sem ráðherrum er skylt að fara eftir alveg eins og öllum öðrum. Og að bera fyrir sig að verið sé að taka einhverja ákvörðun í anda góðrar stjórnsýslu og í anda góðra laga er bara vitleysa og ekkert annað. Hér er verið að setja framkvæmdir í uppnám sem skapa stöðugleika og atvinnu á stóru landsvæði og með því erum við að senda þau skilaboð, ekki bara hér innan lands heldur út um allan heim, að Íslendingum (Forseti hringir.) og íslenskri stjórnsýslu sé ekki treystandi. (Forseti hringir.)

Og að Norðurál sé ekki aðili máls samkvæmt áliti hæstv. umhverfisráðherra er bara með ólíkindum. Ég veit ekki betur en (Forseti hringir.) að ráðherrann sé að fara fram á sameiginlegt mat einmitt til þess að fá álit málsaðila, þar á meðal fyrirtækjanna, á þessum úrskurði. Þetta er fjarstæða, frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmann á að virða tímamörk.)