138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurheimtur á innstæðum Icesave-reikninganna.

[13:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra bað mig að vera kurteis. Ég er alltaf kurteis en ég var á sjó í tíu ár, þess vegna tala ég oft öðruvísi en lögmenn.

Ég er með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um framkvæmd 8. gr. laga nr. 96/2009, um ríkisábyrgð vegna — ég þori varla að segja það — Icesave, þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar.“

Nú er 15. október eftir tvo daga og vil ég því spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi verið gert í þessu endurheimtuferli eða hvort eitthvað sé í bígerð þar að lútandi og þá hvað.