138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurheimtur á innstæðum Icesave-reikninganna.

[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið byggt upp aukið samstarf milli íslenskra og breskra og hollenskra stjórnvalda m.a. í þessu skyni. Sérstakur saksóknari hefur heimsótt Bretland og hliðstæð stofnun þar í landi er væntanleg hingað það ég best veit. Þar er heitið fullri samvinnu og samstarfi. Það eru rannsóknir í þessum efnum í gangi í Bretlandi og verður mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að fá aðgang að þeim upplýsingum. Alþjóðalögreglan Interpol hefur verið í samstarfi út af þessum og tengdum atburðum og þetta hefur að sjálfsögðu verið á borðum í viðræðum aðila núna síðsumars og í haust þannig að ætlunin er að reyna að tryggja að gott samstarf allra aðila verði hjálplegt í þessum efnum eins og kostur er. Það er verið að reyna, og verður reynt, að aðstoða skilanefnd gamla Landsbankans við að gera sem mest verðmæti úr þessum eignum, m.a. með því að greiða götu samstarfs þeirra við þar til bær yfirvöld í löndum þar sem óleyst mál eru til staðar og varða heilmikla hagsmuni einmitt í þessum efnum. Má þar nefna sérstaklega Lúxemborg sem getur skipt talsverðu máli hvernig úr greiðist.

Loks get ég upplýst, og við vorum að taka um það ákvörðun í hádeginu, ég og efnahags- og viðskiptaráðherra, að við munum efna til fundar innan skamms með yfirvöldum og skilanefnd gamla Landsbankans til að fara yfir þessi mál þannig að það verður reynt með öllum tiltækum ráðum að tryggja að hagsmuna almennings og íslenska ríkisins verði gætt í þessum efnum.