138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lít þannig á að spurningar hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur séu fyrst og fremst til vinnu í fjárlaganefndinni vegna þess að fjáraukalögin eru ekki samin af fjárlaganefnd þó að við höfum sum hver komið að vinnunni þegar verið var að breyta frumvarpinu fyrir árið 2009 í sambandi við skýrsluna og annað slíkt. Þar kom fram mjög skýrt að menn vildu hægja á framkvæmdum á Alþingisreitnum, ganga frá þessum fornleifauppgreftri sem þar er en hægja á öðrum framkvæmdum og leggja minni pening í þá framkvæmd. Við töldum að þetta væri ekki mikilvægasta framkvæmdin einmitt við þær aðstæður sem upp eru komnar í samfélaginu en þó var rætt um að reyna að ljúka þessu þannig að sómi væri að hvað varðar frágang umhverfis á reitnum.

Varðandi jöfnun örorkubyrði ræddum við það lítillega í morgun í hv. fjárlaganefnd. Þar kom fram að þessi greiðsla er samkvæmt samkomulagi og á hverju ári eru tilgreindar upphæðir. Í raun er verið að uppfylla það þannig að lækkunin á þessu ári hlýtur að hafa verið innan þess samkomulags, án þess að ég geti svarað því nákvæmlega því við ræddum það ekki í morgun. Aftur á móti er skuldbindingin á næsta ári, sú hækkun sem þar er, einmitt til þess að standa við það samkomulag sem þarna hefur verið gert, til þess að reyna að hjálpa lífeyrissjóðunum að standa við sín fyrirheit gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum, aðallega öryrkjum.