138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[16:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnast nú, með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni, þessar spurningar hennar varðandi Icesave-málið vera heldur draugslegur tónn úr gömlum hjólförum. Það sem skiptir máli í þessum efnum er að það náist ásættanleg og endanleg niðurstaða í samskiptum okkar við Breta og Hollendinga sem sé samrýmanleg frágangi Alþingis á málinu hér í sumar eins og nokkur kostur er og þannig að báðir aðilar geti borið hana fram og fengið hana staðfesta á sínum vettvangi.

Ég vonaðist til þess að menn gætu glaðst hér í dag yfir góðum fréttum af því að kannski verði þessi reikningur þegar upp er staðið mun lægri en svartsýnustu menn óttuðust. Þá ætti það líka að létta mönnum róðurinn, án þess að við ætlum að tengja það saman. Það er einfaldlega verið að láta á það reyna núna þessa sólarhringana, við getum sagt þess vegna þessa klukkutímana, hvort ásættanleg niðurstaða náist í síðustu erfiðu atriðunum sem út af hafa staðið. Gerist það kynnum við hana og komum með hana hingað og bindum þá vonir við að Alþingi reynist þeim vanda vaxið að klára málið fljótt og vel vegna þess að mikið frekari dráttur á því að við komum þessu frá okkur mun reynast okkur mjög dýr.

Varðandi þá ákvörðun umhverfisráðherra að heimvísa til Skipulagsstofnunar úrskurðinum um mat á umhverfisáhrifum á Suðvesturlínu þá hef ég farið yfir það mál rækilega og fengið að sjá gögn þess. Ég tel það rétta stjórnsýslu, já. Það stendur ekkert í stöðugleikasáttmálanum um að það eigi ekki að fara að lögum og góðum stjórnsýsluvenjum í þessum efnum. Ég vil biðja menn að passa sig út á hvaða hála ís þeir eru komnir ef þeir halda að það sé hægt að gera kröfur á stjórnvöld um eitthvað annað. Menn geta komið og lýst vonbrigðum sínum og allt það en ef það er niðurstaða ráðherrans, stjórnvaldsins, á grundvelli vandaðrar lagalegrar skoðunar sem til voru fengnir utanaðkomandi sérfræðingar til aðstoðar ráðuneytinu, að þetta sé rétt stjórnsýsla, vilja menn þá ekki að það sé farið að henni? Eru menn að (Forseti hringir.) biðja um eitthvað annað, hvort sem þeir eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins eða sveitarstjórnarmenn í pólitískum (Forseti hringir.) þrengingum á Suðurnesjum?