138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:11]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það mat sem hv. þingmaður talaði um á sér reyndar stað núna með vinnslu spurningalistanna. Það er það mat sem Evrópusambandið lætur gera á okkur, sem sagt undirbúningur þess að ráðherraráðið geti tekið ákvörðun um hvort við séum tæk sem aðildarviðræðuríki. Matið er því byggt á núverandi stöðu mála. Ég geri ráð fyrir að í svörum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafi þetta frumvarp verið kynnt til sögunnar. Sá háttur var hafður á og þannig voru leiðbeiningarnar frá utanríkisráðuneytinu að við skyldum greina frá því hvaða frumvörp væru í farvatninu.

Þetta verður þá væntanlega m.a. það sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og síðan ráðherraráðið leggur til grundvallar ásamt öllu öðru sem fram kemur í þessum 2.500 spurningum sem við höfum verið að svara að undanförnu varðandi hvort við séum tæk til að verða aðildarviðræðuríki. Ég á ekki von á að það muni steyta á þessu sérstaklega en ég er svo sem ekki algjörlega dómbær á það. Ég vona bara það besta.