138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra þann mikla sannfæringarkraft sem býr í ráðherranum. Hann er fullviss um að hann sé hér með mál í fullum rétti. Það er gott. Menn verða að hafa trú á því sem þeir gera en hann svaraði ekki síðari spurningu minni um hvort hann hefði rætt þessi mál við kollega sína í öðrum löndum. Ég bið hann í sínu seinna andsvari að gera það og eins hvort hann taki ekki undir beiðni mína til formanns hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um að leitað verði umsagnar frá sérfræðingum í Evrópurétti, utanríkisráðuneytinu, sendiráði okkar í Brussel og öðrum sérfræðingum á þessu sviði til þess að taka af allan vafa og tryggja að um vandaða lagasetningu sé að ræða, til þess að við getum eins og ráðherrann hvetur til sameinast um þessa lagasetningu og verið sannfærð um að hún sé okkur til heilla.