138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

sameining háskóla.

26. mál
[14:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina þó að mér finnist hún kannski gera mér upp ákveðnar skoðanir þegar hún ræðir um það að „knýja“ fram sameiningu. Það er fjarri lagi. Það sem ég hef sagt um þessi mál er að ég hef einmitt hvatt til samstarfs og að skólarnir skoði sín á milli hvar samlegðaráhrif þeirra og samstarfsfletir liggja. Það er sú forsenda sem ég hef farið með inn í þetta starf því að vissulega liggur fyrir að við erum með sjö háskóla. Nefnd sem hv. þingmaður, þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skipaði á sínum tíma, tvær nefndir raunar, erlend og innlend, komust báðar að þeirri niðurstöðu að fækka ætti skólum. Erlenda nefndin kom beinlínis með þá tillögu að það yrði einn einkarekinn háskóli, þ.e. að Háskólinn á Bifröst, Listaháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík mundu rugla saman reytum, og hins vegar mundu síðan opinberu háskólarnir rugla saman reytum í einn opinberan háskóla.

Ég veit til þess að einkareknu skólarnir hafa rætt málin og ákveðið að þeim lítist ekki á þennan farveg. Þeir sjá tormerki á því. Sjálf hef ég, má segja, aðallega skoðað hugsanlega sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskóla Íslands. Þar hefur verið starfandi fýsileikanefnd sem er að skoða hvaða samleið þessir skólar eiga. Síðan var starfandi í sumar rýnihópur sem fór yfir þessar tillögur sem báðar nefndirnar, sú erlenda og sú innlenda, skiluðu. Áherslan í þeim hópi snýst fyrst og fremst um að það þurfi að gæta ákveðins frumkvæðis þar sem það hefur komið upp en það skiptir líka máli að þar sem samlegðaráhrifin eru starfi fólk saman í auknum mæli. Ég get ekki sagt að mín skoðun snúist um að ríkisvaldið eigi endilega að beita sér fyrir því að sameina t.d. þessa skóla sem hv. þingmaður spyr um. Hins vegar er ég mjög ánægð með að forsvarsmenn þessara skóla hafa rætt saman og eru um þessar mundir að ræða samstarfsmöguleika. Þar held ég að báðir skólar sjái nokkurn ávinning, bæði þann að rugla saman reytum sínum meira hvað varðar kennslu og að bjóða fram nám milli stofnana. Ég tel víst að þeir hafi hugsanlega rætt samstarf um búnað, aðstöðu og annað slíkt sem getur haldið uppi ákveðinni hagkvæmni, en ég þykist líka vita að þeir telji ekki einhverja sameiningu í spilunum. Þar finnst mér þeir starfa samkvæmt því sem ég hef lagt mikla áherslu á, að það skipti miklu máli að skólarnir skoði sín á milli hvar þeir sjá tækifærin í samlegðinni þannig að við getum í raun og veru haldið áfram þeirri sókn sem við höfum vissulega verið í á þessu sviði, vísindasviðinu og háskólasviðinu, á erfiðum tímum. Það gerum við með því að samnýta kraftana.

Ég held að það sé fyrst og fremst sú skoðun sem ég hef á málinu. Mér finnst mjög mikilvægt að í svona vinnu lítum við til þeirra sem starfa á vettvangi því að þeir þekkja þetta best, þeir sem eru í grasrótinni, þeir sem eru í skólasamfélaginu, og það sem fólk segir þar er að það sér líka ákveðin tormerki á samstarfi, það eru ákveðnir erfiðleikar sem eiga það til að hindra samstarf, hvernig fjármagni er skipt og annað slíkt. Það sem ég hef gert sem ráðherra er að fara í greiningarvinnu á því, t.d. þegar kemur að fjármögnun háskóla, hvað við getum gert til að hjálpa þessum skólum að vinna saman, og líka hvaða möguleika við eigum sem stjórnvöld á því að efla samstarfið, t.d. með sameiginlegu doktorsnámi sem er ein af þeim niðurstöðum sem allar þessar nefndir hafa verið sammála um að væri æskilegt að skólarnir legðust á eitt um að byggja upp. Þar eru uppi hugmyndir um að byggja upp einhvers konar sameiginlegt doktorsnám sem allir háskólarnir ættu aðild að.

Ég vil líka nefna það að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa verið í samstarfi um mjög svipaða þætti, þ.e. hvaða möguleika þeir sjá á auknu samstarfi þegar kemur að kennslu og einhverju slíku, þannig að ég lít svo á að skólarnir séu fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni íslensks háskólasamfélags. Hvernig varðveitum við frumkvæðið og innviðina á hverjum stað um leið og við reynum að þétta raðirnar? Markmið okkar núna er auðvitað að halda fólkinu okkar hér heima, okkar unga vísinda- og rannsóknafólki, bjóða áfram upp á gott nám og geta áfram stundað rannsóknir í fremstu röð. Það er markmiðið og til þess þurfa skólarnir að vinna meira saman en verið hefur.