138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:42]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega athyglisvert að sjá hversu mikinn Sjálfstæðisflokkurinn fer í þessu máli, svo djúp og rík sem hans sögulega ábyrgð er á hruninu sem hér varð, (Gripið fram í: Ertu ekki …?) á Icesave-skandalnum, á 6,7% vöxtum sem hann var tilbúinn til að skrifa upp á og þeim mýmörgu endurteknu yfirlýsingum sem hann hefur haft uppi í málinu og hafði frá hausti 2008. (Gripið fram í.)

Það sem okkur tókst að gera í sumar eins og þingheimur veit var að tryggja öryggisventla fyrir Ísland með greiðsluþaki á þær borganir sem hér færu til Icesave. Þetta greiðsluþak heldur með þessum nýju samningum og það eru engar líkur á því að þeir vextir sem Ísland þarf að greiða fari yfir þetta hámark og það greiðsluþak sem Alþingi er búið að samþykkja. (Gripið fram í.) Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hafa þann stórhug að fagna örlitlum góðum fréttum, m.a. spá um 90% heimtur úr eignasafni Landsbankans, (Gripið fram í.) örlitlum góðum fréttum úr því hörmulega uppvaski sem eftir hann er í hruninu og sem við höfum tekið á okkur og að fagna því að þetta greiðsluþak heldur, Íslandi til hagsbóta. (Gripið fram í.)