138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hætta mér langt í efnislega umræðu um Icesave-málið að þessu sinni enda stóð ég að því áðan að greiða atkvæði gegn afbrigðum sem varð til þess að málið fer ekki á dagskrá í dag. Ég tel að það sé málinu til mikilla bóta ef þingmenn nýta þann tíma sem þá gefst hugsanlega til morguns, til að fara vandlega yfir málið, fara yfir frumvarpið sem hér liggur fyrir og þau fylgiskjöl sem með því fylgja sem sum hver komu reyndar ekki á borð þingmanna fyrr en seint í gærkvöldi. Og að menn beri saman, þingmenn úr öllum flokkum, hvað stóð í lögunum sem samþykkt voru 28. ágúst og hvað stendur í hinum nýju textum, frumvarpi og samningsdrögum. Ég held að ef þingmenn fara í gegnum þann lestur eins og ég er byrjaður á en ekki búinn, þá held ég að menn rekist á afskaplega marga þætti, afskaplega mörg atriði sem eru í veigamiklum atriðum frábrugðin. Ég held að þingmenn, sérstaklega þeir sem stóðu að gerð þeirra fyrirvara sem samþykktir voru 28. ágúst ættu að skoða þetta gaumgæfilega. Ég hygg einnig að ef þeir skoða þessi mál af sanngirni muni þeir komast að því, eins og t.d. Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður sagði í gær, að fyrirvararnir frá 28. ágúst hafa verið tættir niður, þeir hafa verið þynntir út. Ragnar H. Hall tjáði sig á Vísi í gær með þessum hætti, að fyrirvararnir hefðu verið tættir niður. Og til að allrar sanngirni sé gætt þá sagði hann líka að málið liti skár út en það hefði gert í júní, það væri snöggtum skárra en það var í júní. En ég held að ef menn fara yfir málið frá einu efnisatriði til annars þá sjái þeir hvaða útþynning þarna er á ferðinni og þeir sem lögðu á það áherslu í sumar (Forseti hringir.) að það þyrfti öfluga og þétta fyrirvara munu sjá lítinn afrakstur af þeirri vinnu (Forseti hringir.) þegar þeir skoða málin af sanngirni núna.