138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins, Landsvirkjun. Það fyrirtæki hefur vitanlega eins og önnur gengið í gegnum ýmislegt á síðustu mánuðum og árum. Engu að síður bendir allt til þess að Landsvirkjun sé nokkuð gott fyrirtæki og mikilvægt að það verði að sjálfsögðu áfram í eigu ríkisins. Landsvirkjun þarf að geta tekið þátt í því starfi sem fram undan er við uppbyggingu landsins og endurreisn efnahagslífsins. Til þess þarf vitanlega að skapa fyrirtækinu, sem og öðrum fyrirtækjum, svigrúm og andrými til að svo megi verða. Framkvæmdir á næstu árum, á næstu mánuðum helst og jafnvel næstu vikum, og við þurfum að byrja strax, mundu skipta miklu máli fyrir þjóðarbúið.

Á fundi iðnaðarnefndar ekki alls fyrir löngu komu fulltrúar Landsvirkjunar og sögðu meðal annars frá stöðu fyrirtækisins og lögðu fram orðsendingu sem var send til iðnaðarráðuneytisins. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Matsfyrirtækin“ — þ.e. Moody's og þau fyrirtæki — „efast sum um að eigandi Landsvirkjunar hafi vilja og einhverja getu til að standa að baki fyrirtækinu.“

Ef það er efast um vilja ríkisins til að styðja við fyrirtækið og skapa því umhverfi er mjög mikilvægt að eyða þeirri óvissu, ef hún er til staðar. Ég segi: Ef hún er til staðar. Það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið beiti sér núna fyrir því að Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum verði veitt svigrúm til að halda áfram með uppbyggingu á þeirra sviði. Því er mjög mikilvægt að horft verði m.a. til svokallaðrar verkefnavinnu eða verkefnaframkvæmda sem hefur verið töluvert rætt um að fara þurfi í.

Ég skora því á hæstv. fjármálaráðherra að halda áfram, sem ég held að hann geri, að standa vörð um Landsvirkjun (Forseti hringir.) og gera það sem hann getur til þess að þetta öfluga fyrirtæki okkar og í raun fyrirmyndarfyrirtæki geti áfram unnið þjóðinni til heilla.