138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Tillaga sú til þingsályktunar sem hér liggur fyrir ber með sér að náðst hefur mjög rík samstaða á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þessu máli. Allir þingmenn beggja flokka að einum frátöldum, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, eru flutningsmenn að þessari tillögu.

Ástæðan fyrir því að bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa sammælst um þessa þingsályktunartillögu er auðvitað sú að hér er á ferðinni mjög alvarlegt mál. Það er alvarlegt við þær aðstæður sem eru uppi í efnahagslífi þjóðarinnar núna að gripið sé til aðgerða af hálfu þess opinbera sem draga úr möguleikum þjóðarinnar á því að vinna sig úr þeim efnahagsvanda sem við erum í núna og fram undan er.

Mér fannst mjög áhugavert, frú forseti, að hlýða á ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar. Ég ætla að margir í stjórnarliðinu, þeir hv. þingmenn sem hér eru og hæstv. ráðherra, hafi lagt mjög við eyrun þegar formaður þingflokks Samfylkingarinnar talaði. Það kom alveg skýrt fram hjá hv. þingmanni að ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra er óheppileg. Við sem höfum fylgst lengi með stjórnmálum vitum alveg hvað svona orðalag þýðir, óheppileg ákvörðun.

Ég er líka sammála hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að það væri grafalvarlegt ef niðurstaða málsins yrði sú að Skipulagsstofnun kæmist að þeirri niðurstöðu að það ætti að fara í almat. Það mundi þýða frestun upp á jafnvel tvö, þrjú ár. Það er rétt að það væri grafalvarlegt fyrir okkur Íslendinga. Þetta eru athugasemdir sem ég tel hollt að hafa í huga þegar kemur að því að afgreiða þessa þingsályktunartillögu. Ég vona að það verði gert sem fyrst þannig að hún hafi tilætluð áhrif, að ráðherra snúi við ákvörðun sinni og að sú ákvörðun sem Skipulagsstofnun var búin að komast að með faglegum hætti fái að standa og þeirri óvissu sem þarna hefur verið mynduð verði eytt.

Ég vil líka taka undir, svo ég klári að tjá mig um ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, ég vil líka taka undir með honum þegar hann segir að ekki sé heppilegt að við séum að tala niður möguleika orkufyrirtækja og annarra til að fjármagna sig til að vinna í þessum framkvæmdum. Það er ástæða fyrir ýmsa hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherra að leggja eyrun gaumgæfilega við þegar formaður þingflokks Samfylkingarinnar talar með þessum hætti. Því miður hefur borið á því að hæstv. ráðherrar, sumir hverjir, hafi einmitt verið staðnir að því að tala niður einstök orkufyrirtæki og gera þeim erfiðara fyrir, enda hafa viðbrögð forsvarsmanna þeirra fyrirtækja verið mjög harkaleg. Málið er nefnilega að þetta allt saman snertir mjög hinn margumtalaða stöðugleikasáttmála sem gerður var milli ríkisstjórnarinnar, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Það sem þar lá til grundvallar voru einmitt ákveðnar framkvæmdir sem yrði ráðist í vegna þess að bæði þeir sem eru í forsvari fyrir Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins vita hversu þungbært það er að ganga um atvinnulaus, hversu þungbært það er fyrir hvern og einn einstakling og hversu kostnaðarsamt það er fyrir ríkissjóð. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við notum þær auðlindir sem við höfum, það tækifæri sem við höfum, að teknu tilliti til náttúruverndar, að teknu tilliti til alls þess sem við eigum að gera, að teknu tilliti til niðurstöðu Skipulagsstofnunar, og beitum okkur fyrir því að draga úr atvinnuleysi m.a. með framkvæmdum eins og fyrirhugaðar eru í Helguvík. Það skiptir miklu máli fyrir fólkið í landinu.

Hvað varðar orkuskatta sem hér hefur verið minnst á þá hefur sú umræða komið fram og menn hafa spurt sig: Hver borgar þessa skatta? Almennt er það þannig að þegar skattar eru lagðir á fyrirtæki skiptir máli hvort um er að ræða samkeppnismarkað, þ.e. markað sem menn geta velt skattinum yfir á, eða markað sem er með fullri samkeppni þar sem menn geta illa komið skattheimtunni yfir á einhvern annan, þ.e. yfir á kaupanda vörunnar, og verða að bera skattinn sjálfir. Það er margt sem bendir til þess, frú forseti, að fyrirhugaðir orkuskattar séu þess eðlis að það verði þrautin þyngri fyrir orkufyrirtækin að koma þeim yfir á kaupendur að raforku.

Menn hafa heyrt, frú forseti, ummæli ýmissa ráðamanna þjóðarinnar um þessi mál, m.a. hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem komst að þeirri niðurstöðu að það gengi ekkert annað en að raforkuverð til fiskeldis yrði lækkað, það þyrfti líka að lækka raforkuverð til gróðurhúsa og til ylræktar og það þyrfti að gæta þess að hækkun á raforku næði ekki til landsbyggðarinnar. Þá er orðið býsna vandasamt að finna út úr því hvernig á að láta þennan orkuskatt ganga upp, orkuskatt sem hæstv. iðnaðarráðherra hafði ekkert heyrt um. Ætli það verði þá ekki bara við á Ránargötunni í 101 sem borgum.

Þetta er þá staðan sem réttilega hefur verið lýst, að við erum í biðstöðu. Vonandi — og ég tek undir þær óskir sem hafa komið fram — vonandi verður það ekki í langan tíma sem við þurfum að bíða og vonandi verður það þannig að við getum haldið áfram með þessi verkefni. Það er nefnilega þannig að gert er ráð fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim spám og í þeim fyrirætlunum sem liggja fyrir núna um það hvernig hagkerfið muni þróast hjá okkur á næstu árum.

Frú forseti. Í Þjóðarbúskapnum, haustskýrslunni 2009, var sérstaklega tekið fram á bls. 10 áhrif þess einmitt þegar menn eru komnir út úr þessum framkvæmdafasa, hvaða áhrif það muni hafa á hagvöxtinn og hvaða áhrif það muni hafa á meðan á framkvæmdafasanum stendur. Það er því greinilegt að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því að farið verði í þessar framkvæmdir og farið verði á eðlilegum tíma í þessar framkvæmdir. Það geta menn bara séð á þeim ártölum sem um er að ræða. Sama kemur fram í fylgigagni með frumvarpi til fjárlaga á bls. 5, með leyfi forseta. Þar er sagt: „Næstu ár þar á eftir [þ.e. eftir árið 2010] er því síðan spáð að hagvöxtur aukist umtalsvert, m.a. vegna stórra og meðalstórra fjárfestinga árin 2011 og 2012.“ Með öðrum orðum, frú forseti, ríkisstjórnin hefur greinilega ætlað sér að reyna að standa við þann samning sem hún gerði við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. En svo virðist vera að ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra hafi sett þann samning og þær fyrirætlanir í hættu. Það er alvarlegt og þess vegna er flutt þingsályktunartillaga til að bregðast við því, til að Alþingi sýni vilja sinn í málinu, til að Alþingi komi fram með þann einlæga og þann eindregna vilja að umhverfisráðherra snúi við ákvörðun sinni, standi með ríkisstjórninni, standi með Alþingi og standi með fólkinu í landinu í því að leysa þann vanda sem fram undan er. Það er það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á, virðulegi forseti. Það væri auðvitað allt að því fordæmalaust ef ekki fordæmalaust ef af slíku yrði, að hæstv. ráðherra sæi að sér og sneri við úrskurði sem þessum.

Nú eru einmitt tímar sem kalla á að stjórnmálamenn sýni að þeir geti tekið erfiðar ákvarðanir og ef mönnum hefur orðið á og rangar ákvarðanir hafa verið teknar, ef óheppilegar ákvarðanir hafa verið teknar, svo ég noti orðalag hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, formanns Samfylkingarinnar, (Gripið fram í: Þingflokks.) formanns þingflokks Samfylkingarinnar, kannski einn daginn formaður flokksins, það skal ekki útilokað — en ef óheppilegar ákvarðanir hafa verið teknar sem gætu leitt til grafalvarlegrar niðurstöðu þá tel ég að ráðherra í ríkisstjórn Íslands við þessar aðstæður eigi að endurskoða ákvörðun sína og verða við þeim vilja sem kemur fram í þingsályktunartillögunni. Ég held að það væri gæfuspor. Það er ekki þar með sagt og er vel hægt að skilja þá afstöðu ráðherrans að vera á móti álverum. En það er ekki þar með sagt að ef ráðherrann snýr við ákvörðun sinni að þar með væri hæstv. ráðherra að lýsa yfir stuðningi við álver í landinu. En það væri vissulega stuðningsyfirlýsing við atvinnulaust fólk á Íslandi sem bíður eftir tækifæri til að vinna, það væri vissulega stuðningsyfirlýsing við ríkissjóð sem þarf á þessum tekjum að halda, það væri stuðningsyfirlýsing við íslenska þjóð sem þarf á því að halda að það verði fjárfestingar fyrir erlent fé þannig að við séum ekki bara að fylla allt af erlendum lánum sem við þurfum að borga vexti af og vitum ekkert hvernig reiðir af þegar Seðlabankinn ætlar sér að reyna að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar með lánum.