138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór í andsvar við hv. þm. Árna Johnsen til að fá hann til að falla frá þeirri fullyrðingu að hæstv. umhverfisráðherra ætti ekki að líta 2.000 ár fram í tímann vegna þess að ég tel að með því að virkja á Íslandi og nota umhverfisvæna orku sem ekki er framleidd með brennslu kola og gasa séum við að leggja okkar skerf til mannkynsins hvernig svo sem sú orka er notuð, hvort sem hún er notuð til að framleiða ál — mér skilst að hæstv. umhverfisráðherra fljúgi enn þá með flugvélum úr áli á ráðstefnur úti í heimi — eða hvort það er notað til að geyma gögn á Íslandi eða hvernig sú orka er notuð, það skiptir ekki stóru máli. Reyndar tel ég að við séum kannski efnahagslega komin fulllangt með því að einblína á álið. En ég mundi gjarnan vilja virkja til að setja í gagnaver o.s.frv. Að þessu eigum við að stuðla vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra á að hugsa 2.000 ár fram í tímann. Það er einmitt vegna þess sem hún á að virkja eins og hún mögulega getur á Íslandi. Ef hæstv. ráðherra er umhverfissinnuð, þá á að hugsa 2.000 ár fram í tímann og virkja eins og mögulegt er á Íslandi. Þannig leggur ráðherra fram sinn skerf til mannkynsins. Ég skora á hv. þm. Árna Johnsen að draga til baka þá fullyrðingu að við eigum ekki að líta 2.000 ár fram í tímann heldur hugsa um stundarhagsmuni.

Það vill svo til að núna fara þessir hagsmunir saman. Þeir fara saman, hagsmunir hæstv. umhverfisráðherra að gæta að hagsmunum mannkynsins til 2.000 ára og það að efla atvinnu á Suðurnesjum og um allt land því það er ekki bara verið að hugsa um Suðurnesin, við erum líka að tala um Helguvík, við erum líka að tala um Húsavík og við erum að tala um gagnaver á Blönduósi o.s.frv. Við eigum að gefa virkilega í og virkja.