138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram, frú forseti, að ég er innilega sammála síðasta ræðumanni hér, hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur, að við megum ekki tala niður góð verkefni og bið hana vinsamlegast að fara með þau skilaboð inn í ríkisstjórnina sem hún er aðili að.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hún sagði hér áðan að verkefnin mundu halda áfram og af því að mér virtist hún vera mjög viss í sínum málflutningi, hvort hún hafi engar áhyggjur af þeim greinum, þeim skrifum og þeim orðum sem hafa fallið í fjölmiðlum frá t.d. Samtökum atvinnulífsins og öðrum þeim sem eru að vinna að verkefnum við að byggja hér upp atvinnu. Hvort hún hafi engar áhyggjur af því að sú stefna sem stjórnvöld hafa boðað varðandi orkuskatta geti tafið þetta verkefni, og eins að hvort óvissa um stefnuna í orkumálum geti ekki tafið þessi verkefni. Þ.e. hvort orkuskattarnir geti mögulega tafið þetta verkefni eða önnur verkefni bara yfirleitt, og eins óvissa varðandi orkuöflun. Ríkisstjórnin er ekki að senda skýr skilaboð varðandi hvernig á að afla þessarar orku, hvar má virkja eða hvar á að afla hennar og slíkt, þó að næg orka sé til — hvort þetta geti haft áhrif á þessar framkvæmdir.