138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:34]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var ágæt ábending hjá hv. þm. Davíð Stefánssyni. Það er mikilvægt að við horfumst í augu við það að hér höfum við á undanförnum áratugum byggt upp afskaplega óskuldaravænt samfélag. Við höfum löggjöf sem er mjög kröfuhafamiðuð og tryggir kröfuhöfum afskaplega mikinn rétt gagnvart skuldurum. Tilraunir til að bæta jafnvægið þarna á milli og styrkja stöðu skuldara hafa á undanförnum árum ranglega verið úthrópaðar sem aðgerðir sem mundu grafa undan eðlilegri lánastarfsemi í landinu. Með þeim rökum var t.d. á sínum tíma lagst gegn greiðsluaðlögun, með þeim rökum var lagst gegn takmörkunum á ábyrgðarmannakerfinu en ég er algjörlega sannfærður um að ef við hefðum haft löggjöf sem hefði takmarkað möguleika til þriðja manns ábyrgða, sem hefði tryggt gott greiðsluaðlögunarkerfi áður en kom að útlánabólunni miklu 2004, hefði þessi útlánabóla aldrei orðið eins mikil eða eins ábyrgðarlaus og hún í rauninni varð. Þeir sem veittu lánin veittu þau í trausti þess að þeir mundu alltaf eiga alls kostar í fullu tré við skuldara, geta hundelt þá út yfir gröf og dauða til að innheimta kröfurnar. Það olli óábyrgri útlánastarfsemi. Þess vegna er svo mikilvægt að halda áfram með það verk sem við hófum í mars þegar við takmörkuðum þriðja manns ábyrgðir, þegar við lögfestum greiðsluaðlögunina, og styrkja greiðsluaðlögunarúrræðið, styrkja sem kostur er öll þau úrræði sem gera fólki kleift að komast undan skuldum því að það leggur á móti ríkari ábyrgð á lánveitendur að gæta að varkárum lánveitingum. Það styrkir jafnframt samningsstöðu skuldara í viðskiptum við kröfuhafa. Það er eitt (Forseti hringir.) af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi, að fyrir hendi verði skilvirkt kerfi til frjálsra samninga þar sem skuldari (Forseti hringir.) getur samið við kröfuhafa um niðurfellingu skulda sem eru umfram greiðslubyrði í trausti þess að hann eigi völ annarra opinberra úrræða (Forseti hringir.) sem styrkja þar með réttarstöðu hans í frjálsum samningum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna þingmenn og ráðherra á að virða ræðutíma.)