138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan spyrja hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, sem er formaður allsherjarnefndar, út í svokallað persónukjör. Hjá Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi er nú búið að ákveða prófkjör fyrir sveitarstjórnarkosningar 7. nóvember, eftir rúmar tvær vikur, og stuttu síðar á að vera opið kjördæmisþing hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík til að raða upp á lista — og ekkert bólar á persónukjörsmálinu. Því var dreift í sumar og það fór til umsagnar. Síðan virðist allt vera stopp. Mig grunar að það hljóti að vera mikil ósamstaða um þetta mál milli stjórnarflokkanna fyrst það er ekki komið hingað inn. Það er 21. október og tveir flokkar eru búnir að ákveða tímasetningar fyrir uppröðun á lista. Það getur ekki verið að það eigi að láta flokkana fara í gegnum prófkjör og segja svo: Það var nú bara allt í plati, nú verður hérna persónukjör.

Þetta gengur ekki upp í mínum huga, virðulegur forseti. Ef það er einhver alvara á bak við það hjá ríkisstjórninni að leggja fram frumvarp um persónukjörið hljóta menn annaðhvort að ætla að biðja flokkana um að aflýsa þessum prófkjörum, fresta þeim fram yfir áramót eða eitthvað slíkt, sem ég tel að sé mjög hæpin leið, eða bara að segja sannleikann í málinu, að það er svo mikil ósamstaða milli ríkisstjórnarflokkanna að þeir geti ekki komið málinu frá sér. Og það er orðið of seint miðað við þessa ósamstöðu, virðulegur forseti, að klára þetta mál.

Ég vil gjarnan heyra hvað hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sem hefur reynslu af sveitarstjórnarstigi og hlýtur að gera sér grein fyrir því að þetta mál er komið í eindaga segir við spurningunni: Er hægt að gefa út yfirlýsingu núna og viðurkenna að þetta er of seint — það er ósamstaða um málið í ríkisstjórnarflokkunum — eða á að halda öllu áfram í óvissu með þetta mál?