138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:39]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Hér er um gríðarlega stórt og mikilvægt mál að ræða og hugmynd í átt til aukins lýðræðis. Eins og hv. þingmaður kom inn á var mælt fyrir frumvarpinu af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra í sumar og varð töluverð umræða um það í þessum sal. Fjölmargar athugasemdir hafa komið til allsherjarnefndar frá sveitarfélögunum, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hagsmunaaðilum og það verður auðvitað að segja það bara alveg eins og það er að það eru afar skiptar skoðanir um málið. Ef eitthvað er leggst Samband íslenskra sveitarfélaga heldur gegn málinu, m.a. með tilliti til þessa stutta tíma sem fram undan er, en einnig eru nefnd önnur rök eins og kynjasjónarmið, þátttökukostnaður, að prófkjör færist inn í kjörklefa á kosningadag o.s.frv. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir þingið að mjög vel takist til í umfjöllun allri hjá hv. allsherjarnefnd og ekki síður í þessum sal þannig að ef málið verður endurflutt af hálfu dómsmálaráðherra verður væntanlega farið rækilega yfir málið í nefndinni og farið yfir öll sjónarmið.

Ég átta mig fyllilega á því að tíminn er mjög naumur. Hins vegar finnst mér alveg koma til greina að skoða í allsherjarnefnd þá hugmynd sem ég hef viðrað, og fleiri, að þeim sveitarfélögum sem sérstaklega vilja viðhafa persónukjör verði heimilað það á grundvelli einhvers konar bráðabirgðaákvæðis þannig að sveitarfélög sem þess óska gætu í krafti aukins meiri hluta viðhaft persónukjör í sveitarfélögum sínum ef niðurstaðan verður sú að þetta verður ekki hin almenna regla þó ég haldi því samt ekki fram að svo verði ekki.