138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, nýkjörins formanns félagsmálanefndar, sem ég óska henni til hamingju með, um allt annað mál en þau efnahagsmál sem við höfum talað um hingað til. Ég ætla að spyrja hana um mat á örorku sem í dag er mjög forneskjulegt. Fólk sem er 75% öryrkjar eða meira fær fullan lífeyri þótt hann skerðist vegna tekna, en þeir sem eru 74% eða minna fá ekki neitt eða mjög lítið. Auk þess er litið meira á vangetu fólks en getu þess. Það er ekki skoðað hvað maðurinn getur heldur hvað hann getur ekki. Auk þess er endurhæfingin allt of lítil og í algjöru skötulíki.

Á vegum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, bæði með Framsókn og Samfylkingunni — við vorum í samstarfi við þá þó að það sé ekki almennt vitað — var þetta tekið mjög sterkum tökum og það starfaði nefnd sem skilaði áfangaskýrslu þar sem voru hagsmunasamtök sjúklinga, Öryrkjabandalagið og fleiri. Sú nefnd var komin mjög langt í starfi sínu. Í skýrslu hæstv. félagsmálaráðherra um stöðu mála á þessu þingi er ekki getið um þetta mál og ég spyr nýkjörinn formann hvort hún muni ekki beita sér fyrir því að hv. félagsmálanefnd taki þetta mál upp á arma sína, skipi um það nefnd, jafnvel úr öðrum nefndum þingsins því að þetta snertir margar nefndir, bæði efnahags- og skattanefnd og hugsanlega heilbrigðisnefnd, og komi þessu máli eitthvað á rekspöl. Það er ómanneskjulegt hvernig kerfið er uppbyggt í dag. Það er ómanneskjulegt að endurhæfingin sé svona lítil og það er ómanneskjulegt að ekki sé litið á virkni öryrkja heldur vangetu þeirra fyrst og fremst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)