138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

útgreiðsla séreignarsparnaðar.

55. mál
[14:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sá fátt jákvætt við þessa aðgerð eins og reyndar ýmislegt fleira og það er lítið sem ég fæ við því gert. Það er afstaða mín engu að síður að þessi aðgerð hafi verið vel heppnuð og að hún gagnist vel, sérstaklega þeim sem geta bætt stöðu sína með því að grípa til séreignarsparnaðarins fyrr en ella hefði orðið. Er það ekki sjónarmið sem menn verða að hafa í huga ef aðstæður fólks eru erfiðar og það telur hagsmunum sínum betur borgið með því að grípa til þessa forða og nota hann núna, annaðhvort sjálfu sér til stuðnings og hjálpar eða t.d. börnunum sínum, að við opnum fyrir það? Ég held það.

Við skulum ekki gleyma því að reglurnar eru þannig að þetta er séreignarsparnaður, þetta er ekki skyldusparnaður. Reglurnar eru þannig að menn geta fengið hann útgreiddan núna jafnvel í einni upphæð strax og 60 ára aldursmörkum er náð. Ég sé því ekki stóran mun á því að sýna það svigrúm og þann sveigjanleika að fólk kannski á fimmtugs- eða sextugsaldri, sem hefur notað sér þetta í stórum stíl, fái við þessar aðstæður að gera það.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði engin afskipti af þessari aðgerð að öðru leyti en því að honum voru kynnt þau áform ríkisstjórnarinnar að nota stærstan hluta tekjuauka ríkissjóðs sem af þessu kæmi á þessu ári til þess að gera hvað? Stórhækka vaxtabætur. Kannski er hv. þm. Vigdís Hauksdóttir líka óánægð með að talsvert á þriðja milljarð kr. var greitt út í ágústmánuði sl. í aukinn stuðning til lágtekjufólks með þunga greiðslubyrði af húsnæðislánum í formi aukinna vaxtabóta. Þar fer drýgstur hluti tekjuaukans sem til ríkisins kemur vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar. Þessi aðgerð var útskýrð fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þegar hann hafði skilið hvað þarna var á ferðinni gerði hann ekki athugasemdir við það. Að öðru leyti kemur þetta mál honum ekki við, ef hv. þingmanni líður betur með það.

Ég hef svo engu við þetta að bæta. Ég er ákaflega sammála hv. fyrirspyrjanda að flestu leyti um þetta mál og stend við það sem ég hef áður sagt að við munum skoða framhaldið tímanlega áður en fyrstu níu mánaða tímabilunum lýkur og sömuleiðis með dagsetninguna 1. október 2010 í huga.