138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[14:51]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hún vekur þar með athygli á þeirri þingsályktun sem var samþykkt í þinginu á vordögum. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar var Jafnréttisstofu falið þetta verkefni og jafnframt lögð áhersla á að haft yrði sambandi og samráð við samgönguráðuneytið sem fer með sveitarstjórnarmál. Samgönguráðuneytið hafði þá þegar sett á laggirnar nefnd um aukinn hlut kvenna í sveitarstjórnum. Skýrsla þeirrar nefndar er komin út og er að finna á vef ráðuneytisins og er full ástæða til að hrósa samgönguráðherra fyrir það frumkvæði að hafa svona snemma lagt grunn að þessari vinnu.

Þessi mál voru líka aðalumræðuefni á dagskrá landsfundar jafnréttisnefndar sveitarfélaga sem var haldinn á Ísafirði 11. og 12. september sl. Þar samþykkti fundurinn ályktun þess efnis að stjórnmálaflokkum og öðrum framboðum var bent á að þeir væru sjálfir ábyrgir fyrir því að jafnrétti kynja næðist á listum sem lagðir yrðu fram í nafni þeirra í komandi sveitarstjórnarkosningum og skoraði fundurinn á stjórnmálaflokka og önnur framboð að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í efstu sætum á framboðslistum til sveitarstjórnarkosninga vorið 2010.

Jafnréttisstofa hefur jafnframt þegar sent formönnum, varaformönnum og framkvæmdastjórum stjórnmálaflokkanna bréf þar sem þeir eru sérstaklega hvattir til aðgerða innan sinna vébanda. Það er fyrirhugaður fundur í dag sem Jafnréttisstofa hefur boðað til með fulltrúum ýmissa félagasamtaka til að leita eftir enn frekari hugmyndum um aðgerðir. Við erum með ráðstefnu á vegum formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni 18.–19. nóvember nk. um kyn og völd. Þar verða kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknar um þetta efni hér á landi og í tengslum við hana er gert ráð fyrir að sjónum verði beint að konum í sveitarstjórnum og þá sérstaklega með auglýsingum. Jafnframt er í bígerð að frumkvæði Jafnréttisstofu að gera sex útvarpsþætti hjá Ríkisútvarpinu um hlutverk sveitarstjórna og konur kynntar úr öllum stjórnmálaflokkunum sem gætu verið góðar fyrirmyndir annarra kvenna sem áhuga hafa á þátttöku í sveitarstjórn.

En það er auðvitað mikilvægt að undirstrika að þeir sem taka þátt í stjórnmálastarfi, og þá sérstaklega þeir sem starfa á sveitarstjórnarstiginu, bera ábyrgð á þessu verki. Við náðum ágætum árangri við síðustu þingkosningar þegar sú niðurstaða kom upp úr kjörkössunum að tæplega 43% þingmanna eru nú konur. Ég er sjálfur ekki í nokkrum vafa um að sú ágæta niðurstaða stafaði af því að þeir flokkar sem fengu mesta fylgisaukningu í þeim kosningum höfðu haft kynjakvóta, annaðhvort opinberan eða óopinberan, í niðurröðun í efstu sætum. Ég sé það úr mínum flokki að samanburðurinn, sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum frá kosningunum 2007 til kosninganna 2009, er algerlega sláandi. Það skýrir auðvitað fyrst og fremst þá niðurstöðu að við erum að ná jafnræði mill karla og kvenna í okkar þingflokki.

Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að menn hugleiði það fyrir alvöru hvort menn eigi ekki að hvetja stjórnmálaflokkana til að horfa á þessa lexíu og velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að hafa einhvers konar kerfi sem tryggir jafnan hlut í efstu sætum milli kynjanna, hvernig sem svo það er aftur útfært, með fléttufyrirkomulagi eða með því að það sé jafnt hlutfall kynja í fjórum efstu sætunum eða hvernig svo sem menn kjósa að gera það. Ég held einfaldlega að reynslan sýni það að meðan viljinn var það eina sem við höfðum þá gerðist ósköp lítið en um leið og bættist við að settar voru tilteknar girðingar þá sjáum við alveg umtalsverðan árangur. Þess vegna held ég að það sé full ástæða til að hvetja stjórnmálaflokkana til að horfa til þess núna við undirbúning sinna prófkjara og vals á lista hvort ekki eigi að búa til einhvers konar girðingar sem styðji við jafnt hlutfall karla og kvenna í efstu sæti framboðslistanna.