138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu.

48. mál
[15:18]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda kærlega fyrir þessa fyrirspurn og held að hér sé verið að ræða afar þarft mál. Mig langar í þessu sambandi aðeins að minna á að við erum búin að stofna stærsta þjóðgarð í Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarð. Í tengslum við hann og þær verndaráætlanir mjög ígrundaðar sem verið er að vinna, sé ég fyrir mér mikil tækifæri í þessu sambandi. Þá langar mig líka að bera niður á sama stað og hv. þm. Anna Margrét var hér að gera, því ég minni á að hjá Þekkingarneti Austurlands er að fara af stað mjög spennandi meistaranám í umhverfis- og þjóðgarðsfræðum í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Ég sé fyrir mér að þarna í raun og veru getum við nýtt þann mannauð sem felst í meistaranemum til þess að vinna rannsóknir á þessu sviði.