138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu.

48. mál
[15:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna þeim tón sem ég heyri hjá hæstv. iðnaðar- og ferðamálaráðherra, Katrínu Júlíusdóttur. Þetta er réttur tónn. En nú þarf bara að sýna að tónninn sé tær og það verði farið í það sem hér er sagt og ég treysti því að hæstv. ráðherra geri það og mun auðvitað reyna að aðstoða eftir megni í því.

Hæstv. ráðherra sagði að það ætti að kalla saman rannsóknaraðila, fara yfir þessi mál og lagði mikla áherslu einmitt á þessa landnýtingaráætlun.

Það er þannig, virðulegur forseti, að það stefnir í að hér verði ein milljón ferðamanna árið 2016 og við verðum að taka vel á móti þessu fólki án þess að skaða okkar umhverfi í leiðinni. Það er rétt að það þarf að dreifa ferðamönnum, bæði erlendum og íslenskum, um landið, þannig að við getum tekið vel á móti auknum fjölda án þess að skaða það og án þess að ferðamennirnir hætti að koma, því það eru of margir á hverjum stað. Við erum að upplifa það m.a. í Landmannalaugum að þar er svo mikill átroðningur stundum að fólk vill ekki koma aftur, það segja rannsóknaraðilar.

En við höfum rannsakað of lítið og þeir sem hafa vilja til að rannsaka hafa fengið of mikið af höfnunum. Þessu þarf að breyta. Ég veit að það er nefnd sem hefur hafið störf undir forustu Ólafs Arnar Haraldssonar, fyrrum þingmanns, sem er einmitt að skoða umhverfisgjöld í ferðaþjónustu, ég veit að fjármagn þaðan gæti runnið í þetta. Ég held að sé algjörlega ljóst að það verður að rannsaka, gera áætlanir, síðan þurfa menn að ákveða hvar á að byggja upp innviðina. Hvar eiga göngustígarnir að vera? Hvar eiga pallarnir að vera? Hvar eiga salernin að vera o.s.frv.?

Á Hakinu á Þingvöllum eru dæmi þess að það séu 1.800 manns á sömu mínútu. Það eru sjö salerni þar. Hver á að borga fyrir þessi salerni o.s.frv.? Þetta þarf allt að gera áætlanir um og síðan að byggja upp og forgangurinn er að fara að rannsaka og gera áætlanir og (Forseti hringir.) ég fagna mjög þessum tón hjá hæstv. iðnaðarráðherra og ferðamálaráðherra.