138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

brottvísun hælisleitenda.

[10:47]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að Ísland er aðili að Dyflinnar-samstarfinu. Meginreglan þar er sú að endursenda skuli hælisleitendur til þess lands þar sem þeir lögðu fram umsókn um hæli. Er gengið út frá því að þetta sé meginreglan. Það er rétt sem bent hefur verið á, að frá þessari meginreglu er undantekning. Undantekningin er túlkuð þröngt en það gildir um þessa undantekningu, eins og allar aðrar undantekningar, að það verður að finna almennan mælikvarða til að beita slíkri undantekningu til að gæta jafnræðis meðal þeirra einstaklinga sem leita hælis hér á landi. Í þessu máli fórum við yfir alla framkvæmd á Norðurlöndunum og í þeirri skoðun kom fram að ekkert Norðurlandanna hefur tekið þá ákvörðun að endursenda ekki hælisleitendur til Grikklands. Öll löndin gera það sem sagt.

Við þá aðferð að reyna að finna hina almennu mælikvarða til beitingar undanþáguheimildar sem í rauninni liggur ekki fyrir að eigi að beita gagnvart einu ríki ákváðum við að gera það í þessu samhengi. Þá var ákveðið að fara að almennum mælikvörðum sem birtir voru almenningi og Alþingi og farið þannig eftir málum að þetta væri einstaklingsbundið mat sem er mjög óvenjulegt í Dyflinnar-málum.

Hvað varðar birtingu kem ég kannski að því í síðara svari en eftir mínum upplýsingum var þar farið eftir þeim lögum og reglum sem vísað var til áðan.