138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ótrúlegt að hlusta á þessa ræðu. Það var ekki bara ótrúlegt að hlusta á hvað kom fram í henni, það var líka ótrúlegt að hlusta á hverju var sleppt. Hæstv. ráðherra er svo upptekinn af því að reyna að gera þetta pólitískt og slá pólitískar keilur í þessu máli og því ákvað hann að sleppa því að segja frá Brussel-viðmiðunum sem voru grundvöllur samningaviðræðnanna. Hann minntist ekki einu orði á þau, ekki einu orði.

Þessi maður kom hér fyrir nokkrum vikum og sagði: Nú erum við búin að vera hér í allt sumar, það er frábært að við erum búin að ná niðurstöðu og hún er innan ramma samkomulagsins. Spurningin er sú: Af hverju erum við þá að taka þetta upp núna? (VigH: Heyr, heyr.) Ekki var hæstv. ráðherra að skrökva, það mundi hæstv. ráðherra ekki gera? (Gripið fram í.) Og úr því að hann sagði svo afgerandi að þetta væri innan ramma samningsins, af hverju erum við að ræða þetta núna?