138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig vera búinn að koma inn á þetta atriði. Það er allt rétt sem haft er eftir mér þarna og ég er enn þeirrar skoðunar að á þeim tíma hafi verið skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að velja leið samninganna umfram dómstólaleiðina — á þeim tíma. En að sjálfsögðu fylgir það þessari ákvörðun að sætta sig ekki við afarkosti, að sætta sig ekki við að taka á sig allar byrðarnar meðan mótaðilinn vill engan þátt taka í lausn málsins.

Ég veit ekki hversu oft ég þarf að segja þetta en það kemur t.d. fram í þessari ræðu minni að ég bar samningaleiðina saman við það að tapa dómsmáli. Ég taldi að við gætum náð betri samningum mögulega vegna þess pólitíska vilja sem birtist í sameiginlegu viðmiðunum en að við sætum hugsanlega uppi með það ef málið færi fyrir dómstóla og við töpuðum því þar. Það væri áhætta að fara fyrir dómstólana í þessu máli.

Hver er áhættan þegar við erum með samning í höndunum um að taka á okkur allar byrðarnar, hverja evru og hvert pund, og við greiðum vaxtaálag til Breta og Hollendinga? Við greiðum þeim vaxtaálag fyrir að lána okkur fjárhæðirnar. Það er því engin fjárhagsleg áhætta í því og þaðan af síður pólitísk fyrir okkur Íslendinga að fara fram á þetta. Það er stóra breytingin frá þingmálinu eins og það leit út eftir sumarþingið að verði þetta samþykkt höfum við ekki réttinn til þess að takmarka ríkisábyrgðina, verði leyst úr þessum lagalega ágreiningi síðar.