138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það athyglisverðasta sem hv. þingmaður sagði í máli sínu hér áðan hafi verið spurningin: Eigum við val? Við eigum val. Valið snýst um það annars vegar að semja og þá í þessari stöðu sem við erum núna, að fallast á u.þ.b. það sem við höfum í höndunum eða að fara hina leiðina, að hafna samningum með öllu sem því fylgir. Það var reyndar hv. þingmaður sem sannfærði mig með mjög „elegant“ ræðum hér í nóvember og í byrjun desember um að við ættum að fara samningaleiðina.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé minni áhætta fólgin í því að gera það, að fara samningaleiðina. Ég tel að frágangur Icesave-málsins losi um svo mikið og hann sé svo mikils virði fyrir uppbygginguna sem við erum að ráðast í að sú staðreynd ásamt þeirri að málið er breytt vegna þess að fórnarkostnaður vegna samningsins er minni en hann var, frá mínum bæjardyrum séð. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef þegar sagt, að afraksturinn úr þrotabúinu verði töluvert meiri og að þegar upp er staðið verðum við nær því að fá úr þrotabúinu 100% höfuðstólsins en fjær því. Ég held sömuleiðis að efnahagsbati í heiminum geri það að verkum að það verði auðveldara fyrir okkur að afsetja eignirnar fyrr þannig að vaxtakostnaðurinn verði líka minni. Ég held því að heildarpakkinn sem við munum axla (Gripið fram í.) sé betri og miklu léttari en horfði til áður.

Þetta gerir það að verkum að af þessum rökum tek ég ákvörðun, af því að við höfum þetta val. Hv. þingmaður sagði að við ættum að reyna að sameinast um það sem okkur væri sameiginlegt og það er að gera það sem er best fyrir Ísland. Ég held að þetta sé best fyrir Ísland. Ég tel sömuleiðis að hv. þingmaður hafi ekki lýst stuðningi við þau samkomulagsdrög sem á sínum tíma komu fram. Sennilega hefur honum verið farið eins og ýmsum sem jafnvel sátu í ríkisstjórninni, að hann hafi ekki heyrt af þeim.

Hitt getur hv. þingmaður ekki þvegið af sínum flokki, að forusta flokksins á þeim tíma vildi gera það.