138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að svara síðustu spurningunni strax, ef ágreiningur kemur um niðurstöðu héraðsdóms er því áfrýjað til Hæstaréttar. (Gripið fram í.) Ekki til EFTA-dómstólsins. (Gripið fram í.) Það er nefnilega hinn stóri misskilningur að það sé hægt að áfrýja málum til EFTA-dómstólsins eftir að Hæstiréttur hefur leyst úr málum. Ég ætla ekki að fara í hártoganir við hv. formann fjárlaganefndar um þetta.

Það er fullyrt að málið hafi verið lagt fram með fullbúnum gögnum. Við kölluðum t.d. eftir eignasafninu, við höfum ekki enn þá fengið að sjá það. Er þá hægt að fullyrða að við höfum fengið að sjá öll gögn? Hvað með þetta lögfræðiálit sem dúkkaði upp í fjölmiðlum, sem vildi svo skemmtilega til að varð heldur óþægilegt fyrir ríkisstjórnina? Hvað með öll leynigögnin, af hverju var leynd á þeim? hlýtur maður að spyrja. Hvað með þetta Memorandum of Understanding frá árinu 2006 þegar menn settust niður og ákváðu að það væri engin ríkisábyrgð? Það er hvergi að finna.

Stóð aldrei til að fella niður skuldir árið 2024? (Gripið fram í.) Ég vil bara benda á að það (GuðbH: Lestu …) voru ekki þingmenn Samfylkingarinnar sem sömdu þá fyrirvara. Þeir tóku hins vegar þátt í því að brjóta þá niður á allan mögulegan hátt. Það voru þingmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem sömdu þá fyrirvara og allir túlka þeir þetta á annan hátt en hv. formaður fjárlaganefndar.

Við framsóknarmenn höfum ítrekað lýst því yfir að við viljum að sjálfsögðu standa við allar okkar skuldbindingar eins og menn eiga almennt að gera. (Gripið fram í.) Hins vegar hljóta menn, ef það er ágreiningur og ef menn eru í alvörunni uppistandandi, að segja: Gott og vel, ef það er ágreiningur skulum við finna (Forseti hringir.) þar til bæran úrlausnaraðila, hlutlausan dómstól, (Forseti hringir.) gerðardóm, til þess að leysa úr málinu.