138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart að framsóknarmenn haldi áfram að svara því engu í hverju skuldbindingin felst. Skuldbindingin felur í sér það að kalla menn til dóms. Það hefur ekki verið sýnt fram á með hvaða hætti það er hægt eða hvaða dómar það eru. Þegar ég er að ræða um EFTA-dómstólinn er ég ekki að tala um að áfrýja til hans heldur spyr ég um þætti í lagalega umhverfinu: Hver er réttur þeirra sem eru aðilar að máli ef þeir eru ósáttir við niðurstöðu í lok máls? Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hlýtur að geta svarað því sem lögfræðingur og þá upplýst mig umfram það sem ég vissi áður.

Fullyrt er að ekki hafi átt að gera fyrirvara. Hér er hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, við ræddum saman um þessa fyrirvara strax í upphafi vinnunnar. Hann var talsmaður þess í nefndinni, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson veit, að menn mundu reyna að ná sáttum í málinu og um það snerist vinnan frá upphafi. Vinnan snerist líka um það að fá öll gögn fram í málinu og það væri mjög gaman að heyra um öll þessi leyniskjöl sem verið var að tala um, það var heil mappa sem að mestu leyti er byggð á minnisblöðum af fundum sem ekki höfðu verið staðfest af viðkomandi þátttakendum. Þess vegna voru þau gögn ekki með.

Það er alveg rétt að það hafa komið fram tvö, þrjú skjöl sem ekki höfðu verið lögð fram og það er þá rétt að halda þeirri tölu til haga en tala ekki alltaf í fleirtölu eins og hér hafi verið leynd yfir öllu (Gripið fram í.) nema framsóknarmenn hefðu farið fram á annað.

Mig langar að fá eitt fram hjá hv. þingmanni. Eitt af því sem við reiknuðum ekki í fjárlaganefnd var kostnaðurinn við að ljúka ekki málinu. Það var margítrekað kallað eftir gögnum um hvað það gæti hugsanlega þýtt fyrir okkur varðandi greiðsluþolið. Það endaði með því að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði áliti og ég held að það sé nefnt á sex eða átta stöðum í því áliti að forsenda þess að við komumst í gegnum þessi vandræði sé að við séum í góðum alþjóðlegum samskiptum, að við getum fengið endurlán og getum lengt í lánum og endurfjármagnað okkur. Það hefur lítið verið dregið fram í umræðunni og þess vegna spyr ég: Hver er kostnaðurinn að mati framsóknarmanna við að ljúka ekki málinu (Forseti hringir.) og teygja lopann í ósátt við alþjóðasamfélagið?