138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir mjög athyglisvert að hæstv. utanríkisráðherra skyldi ekki svara hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann benti á barbabrelluna (Gripið fram í.) í kringum það þegar menn búa til þær eignir sem verða til.

Hv. þingmaður kom talsvert inn á það í ræðu sinni að hann metur mikils pólitíska yfirlýsingu Breta og Hollendinga og telur að hún vegi þungt. Þar er ég hins vegar algjörlega ósammála honum og mig langar að spyrja hann í beinu framhaldi af því hvort reynsla hans af framgöngu þeirra í þessu máli gefi miklar vonir um að pólitískar yfirlýsingar hafi yfir höfuð eitthvert vægi, eins óbilgjarnir og þeir hafa verið.

Síðan langar mig líka að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hvort honum finnist að við eigum að sækja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til saka vegna framgöngu hans í þessu máli, vegna þess að í stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stendur að hann megi ekki gera þetta með þessum hætti. Hann er sannarlega að brjóta lög, sín eigin lög og sína eigin stofnskrá. Finnst hæstv. ráðherra ekki rétt að íslensk stjórnvöld sæki skaðabætur á hendur þessari stofnun?