138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. varpaði til mín þremur spurningum. Mér fannst hann vera að spyrja af hverju ég hefði ekki svarað spurningu hv. þm. Péturs Blöndals. Hv. þm. Pétur H. Blöndal varpaði engri spurningu til mín, hann kom hér og var út af fyrir sig með fróðlegar vangaveltur, en ég heyrði þá (PHB: Þetta er rangt hjá ráðherra.) a.m.k. ekki spurningu hv. þingmanns, ég var með engum hætti að reyna að vanvirða hann, það geri ég auðvitað aldrei, eins og hv. þingmaður veit.

Varðandi síðan spurninguna um Breta og Hollendinga og hvort ég gefi eitthvað fyrir yfirlýsingar þeirra miðað við fortíðina. Þeir hafa þó hingað til ekki gefið neinar aðrar yfirlýsingar hvað þetta varðar, þeir hafa ekki gefið neinar aðrar yfirlýsingar um einhvers konar samstarf við okkur sem máli skipta. Við verðum að láta á það reyna og ég treysti því og veit það bara af reynslu úr alþjóðlegum samskiptum að svona yfirlýsingar skipta máli og þær munu gefa okkur fótfestu ef í nauðir rekur.

Nei, er svarið við þriðju spurningunni.