138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. Guðbjarti Hannessyni á að Alþingi hefur nú þegar lokið atkvæðagreiðslu sinni um þetta Icesave-mál. (Gripið fram í.) Því lauk 28. ágúst sl. þannig að því er lokið. (Gripið fram í.) Það stendur í frumvarpinu sem varð að lögum þann dag, 2. september, að kynna skyldi fyrir Bretum og Hollendingum þá fyrirvara sem fyrir lægju í þessu lögum til samþykktar eða synjunar. Bretar og Hollendingar hafa synjað þessum fyrirvörum. Þess vegna er það alveg með ólíkindum að framkvæmdarvaldið skuli koma hér á ný með málið til að leggja það á ný fyrir Alþingi. (GÞÞ: Heyr, heyr.) Það er alveg með ólíkindum að við alþingismenn skulum standa í þessum sporum. Þetta mál verður ekki leyst aftur frá Alþingi. Hvað gerist ef það verður fellt í atkvæðagreiðslu? Á að gera þriðju tilraun að koma með Icesave-samningana fyrir Alþingi? Þessu máli lauk 28. ágúst (Forseti hringir.) og miðað við það sem hv. þingmaður sagði hafði hann fullvissu fyrir því 28. ágúst að (Forseti hringir.) þetta yrði samþykkt úti.