138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar FL Group keypti í amerísku flugfélagi fyrir gífurlegar fjárhæðir og tók mikla áhættu var örugglega reiknað með því að það gengi upp, (Gripið fram í.) ef allt væri eðlilegt. En það gerðist ekki. Íslenska þjóðin þarf að hætta að taka svona áhættur. Hún þarf að hætta því og alveg sérstaklega þegar svona mikið liggur undir. Það er alveg greinilegt að bæði samninganefndin, ráðherrar og hv. þingmaður skilja ekki hvað áhætta er. Þeir gátu ekki sýnt Bretum og Hollendingum þessa fyrirvara sem tryggingu, Bretar og Hollendingar hefðu samþykkt þá eins og skot ef þeir hefðu fengið þessa fyrirvara sem tryggingu, þeir væru til í að tryggja þjóðina fyrir því að lenda í áföllum. Þeir hefðu strax samþykkt það. Þeir eru stórir og voldugir og þá munar ekkert um þetta. Það er þessi tryggingarhugsun sem er á bak við þetta sem hefur mistekist að skýra og það er ekki að furða þó að hv. þingmaður skilji það ekki því að hann hélt að við mundum borga ef við lentum í djúpum pytt, eftir 2024, en það stóð ekki til.