138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hæstv. utanríkisráðherra. Hann telur að Ragnars Halls-ákvæðið hafi styrkst. Ragnar H. Hall segir sjálfur að búið sé að tæta það í sundur. Ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir hæstv. utanríkisráðherra að ég tek meira mark á Ragnari H. Hall þegar hann talar um þessa fyrirvara. Það er bara einu sinni þannig

Síðan kemur hæstv. utanríkisráðherra inn á að þetta hafi styrkst. Hvað er búið að gera í samningunum í þessum fyrirvörum? Nú á að skrifa fyrirvarana að samningunum og samningarnir fara að breskum lögum. Í hinum fyrirvaranum var sagt, og það var skýlaus krafa Alþingis, að það ætti að skrifa samninginn að fyrirvörunum. Þetta er stórhættulegt mál. Þá komum við að því að ef menn lenda í deilum fara þeir eftir breskum lögum þannig að menn skrifa ríkisábyrgðina að samningunum en ekki samningana að ríkisábyrgðinni eins og átti að gera. Þetta er grundvallarbreyting á þessu máli. Það er mikilvægt að það komi fram.

Síðan sagði ég ekki, frú forseti, að hæstv. utanríkisráðherra hefði verið að tala um þetta minnisblað. Ég sagði að hér hefðu margir þingmenn, og þar á meðal tveir hæstv. ráðherrar, talað um þetta minnisblað. Ég sagði aldrei að hæstv. utanríkisráðherra hefði gert það. Það voru aðrir sem gerðu það, svo það komi skýrt fram.

Ég ætla hins vegar ekki að fara að ræða efnislega um breytingartillögur vegna þess að ég lít svo á að fjárlaganefnd Alþingis hafi það hlutverk að fá til sín sérfræðinga til að fara yfir þessa fyrirvara. Ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra sem hefur þessa skoðun í dag og er búinn að lýsa yfir stuðningi við málið á þessum grunni að Ragnars H. Halls-ákvæðið, hafi styrkst. Það kostar íslenska þjóð tugi ef ekki hundruð milljarða, komi annað í ljós muni hann bara skipta um skoðun (Utanrrh.: Þú veist að utanríkisráðherra skiptir aldrei um skoðun.) og greiða þessum fyrirvörum (Forseti hringir.) ekki atkvæði sitt.