138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr hvort ég telji að ríkisábyrgðin frá 28. ágúst sé fallin úr gildi. Ég vona að ég detti ekki í einhvern lagalegan pytt því að ég er ekki mjög góð í lögfræði. Hins vegar vil ég segja að við erum í samningum við aðrar þjóðir. Ríkisábyrgðin, eins og við samþykktum hana í vor, var einhliða yfirlýsing um það hvernig við vildum að gengið yrði frá samningum. Það var ekki á það fallist. Það er mjög einfalt mál og það þarf ekki að tala um það í margar vikur. Hér er komin lausn þar sem helstu atriði sem skipta máli eru í þessu frumvarpi. Ég mælist til þess að þingheimur samþykki þetta frumvarp til að við komum því í verk sem þarf að gera til að endurreisa efnahagslífið sem sett var á hvolf. Ég segi það alveg eins og er að ef ég bæri ábyrgð á því ætti ég erfitt með að vakna á morgnana, hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Ég ætla líka að segja út af óvissunni, að ég las það í ekki ómerkara blaði en Fréttablaðinu í morgun (Gripið fram í.) að lánshæfismat vegur salt núna vegna þess að við höfum ekki samið. Á fundum sem ég var á í gær og í morgun var sífellt talað um óvissuna vegna þess að ekki hefur enn verið gengið frá Icesave-samningunum. Og þetta eru ekki óvinir Péturs H. Blöndals á þessum fundum. Þetta eru Samtök atvinnulífsins (Gripið fram í.) og fyrirtækjarekendur í landinu sem hafa þetta að segja. (Gripið fram í: Ekki almenningur. …)