138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í þessari umræðu í dag hafa að mínu mati komið fram þau helstu meginsjónarmið sem máli skipta. Að henni lokinni mun þetta frumvarp ganga til nefndar og ég geri mér vonir um að í meðförum fjárlaganefndarinnar muni frumvarpið verða rætt ítarlega og að málinu verði kallaðir færustu sérfræðingar til þess að leggja mat á þá stöðu sem upp er komin ef til þess kemur að það verði að lögum.

Menn hafa rætt hér nokkuð aðdraganda þessa máls, hvernig standi á því að við Íslendingar erum í þessari stöðu. Ég ætla ekki að blanda mér meira inn í þá umræðu en bendi á að það er alveg lykilatriði sem kemur fram í 2. gr. frumvarpsins.

Hún hefst svo, með leyfi forseta:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Með öðrum orðum, það er verið að segja hérna að við höfum í raun og veru náð pólitískri lausn, að sú lausn sem hafi orðið á milli landanna sé pólitísk í eðli sínu, að við Íslendingar höfum ekki gefið frá okkur þá skoðun og vinnum samkvæmt þeirri skoðun okkar að það sé ekki greinileg lagaleg krafa á okkur að við greiðum þessa peninga en að við höfum komist að þeirri niðurstöðu að það sé samt skynsamlegt að gera það.

Það var sú hugsun sem lá að baki hjá okkur sjálfstæðismönnum þegar við sögðum síðasta haust að það væri eðlilegt að ganga til samninga í þessu máli, að við vildum láta á það reyna hvort hægt væri að ná pólitískri lausn í þessu máli. Það var alveg lykilatriði. Það skipti miklu máli fyrir Ísland að við sýndum að við hefðum vilja til þess að lenda þessu máli skynsamlega í sátt við Breta og Hollendinga og alþjóðasamfélagið. Það var ekki þar með sagt, og mér finnst alveg furðulegt að heyra þann misskilning koma fram aftur og aftur, að það væri rétt að fara í það verkefni að reyna að ná niðurstöðu, að við mundum sætta okkur við hvaða niðurstöðu sem væri, að við værum tilbúin til þess að játast undir hvaða niðurstöðu sem væri í málinu. Það var aldrei sagt, að sjálfsögðu ekki vegna þess að pólitísk niðurstaða í þessu máli hlaut alltaf að innifela niðurstöðu sem var eftir þeim línum sem komu fram eftir að Alþingi hafði fjallað um upphaflega samninginn sem kom til landsins. Það hafði sett sína fyrirvara sem fólust m.a. í því að sú ábyrgð sem Ísland ætlaði að bera takmarkaðist, þó þannig að ef allt gengi hér vel, innheimtur á eignum Landsbankans gengju vel, hér væri góður hagvöxtur, stæði til að borga alla upphæðina.

En, og þetta „en“ er alveg gríðarlega mikilvægt, við sögðum: Ef svo verður ekki, ef þessar mikilvægu forsendur bresta með einhverjum hætti ætlum við ekki sjálfkrafa að bera ábyrgð á allri upphæðinni. Í mínum huga er það einmitt það sem menn tala um sem pólitíska lausn, að það sé eðlilegt að menn deili ábyrgðinni á milli landanna. Það var eðlilegt líka í ljósi Brussel-viðmiðanna og ég leyfi mér að segja, frú forseti: Það er bara sanngjörn niðurstaða í þessu máli. Ísland setti fram sanngjarna lausn á borðið með þeim fyrirvörum sem við settum á málið hér í ágústmánuði. Ef við hefðum farið fyrir dómstóla og tapað málinu, hvað hefði það þýtt? Það hefði þýtt það að við Íslendingar hefðum borið ábyrgð á allri upphæðinni. Og það er það sem við segjum svo sem hér líka. Við segjum: Við ætlum að bera ábyrgð á allri upphæðinni, hún verður öll greidd. Það sem við deilum síðan um við Breta og Hollendinga er á hve löngum tíma við gerum það, með hvaða vaxtaprósentu, hvernig við gerum það, en við ætlum að borga allt. Á þessu er auðvitað reginmunur og það hefur komið fram hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar að þeir gera sér fyllilega grein fyrir því. Hæstv. utanríkisráðherra kom m.a. inn á það hér fyrr í dag.

Það sem mér þykir einna alvarlegast að þessu viðbættu, þ.e. að hin pólitíska lausn reyndist ekki vera nein pólitísk lausn, hún var bara lausn um að við ættum að borga allt, er að það skuli í raun og veru falla út sá mikilvægi fyrirvari sem við gerðum sem átti að tryggja að ef ekki gengi vel hérna á Íslandi, ef það væri lítill sem enginn hagvöxtur, borguðum við ekki stórar fjárhæðir til Hollendinga og Breta, það var alveg lykilatriði. Það er tryggingin sem við ætluðum að setja fyrir íslenska þjóð, fyrir næstu kynslóð, að ef það færi t.d. hér eins og í Japan, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á, að hér kæmi heill áratugur þar sem hagvöxtur væri lítill sem enginn — og það er enginn sem getur gefið neina tryggingu fyrir því að svo verði ekki. Enginn í þessum sal og enginn á þessu landi getur gefið tryggingu fyrir því að það verði ekki. Það þarf ekki meira til en það sem gerst hefur hér í þjóðarsögunni þegar síldin brást eða þegar verð á mörkuðum fyrir okkar helstu afurðir keyrðist niður — það gæti valdið alveg gríðarlegum búsifjum. Fyrirvarinn var settur til þess að tryggja okkur fyrir því að ef slíkir atburðir ættu sér stað væri ákvæði í þessum lögum sem gerði það að verkum að við Íslendingar þyrftum ekki að borga um leið stórar fjárhæðir til Breta og Hollendinga. Það var lykilatriði.

Með því að segja að vextirnir verði undanþegnir þessu, að vextirnir verði alltaf greiddir á hverju ári, er verið að varpa þessum fyrirvara fyrir róða. Hann var eitt af meginatriðunum í þeirri niðurstöðu sem fékkst hér í ágúst sem þingmenn voru sammála um. Þetta er auðvitað eitt af þeim verkefnum sem við þingmenn höfum núna, að skoða hvort við séum sátt við þessa niðurstöðu. Það er skylda okkar sem hér erum inni, sem erum ekki fulltrúar Samtaka atvinnulífsins eða Alþýðusambandsins heldur fólksins í landinu — af því að mér fannst bera nokkuð á þeim misskilningi að það væri aðalatriðið hvort Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið væru ánægð með þetta mál — það er skylda okkar sem fulltrúa kjósenda, þeirra sem landið munu erfa að við gætum hagsmuna þeirra.

Við þurfum að spyrja okkur sem þingmenn: Viljum við taka þennan fyrirvara sem við vorum sammála um í ágústmánuði — og þetta eru sömu þingmennirnir sem hér sitja og sátu þá — og færa hann aftur inn í þessi lög og segja: Það er vilji Alþingis að þessi fyrirvari sé inni, við viljum ekki taka þessa áhættu. Það er ekki rétt sem sumir hv. þingmenn hafa sagt að það séu engar líkur á því að sú staða komi upp að greiðslurnar af vöxtunum verði meiri en viðmiðin gerðu ráð fyrir í ágúst sl.

Eftirfarandi kemur skýrt fram á bls. 10 í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Talið er líklegt að vaxtagreiðslur haldist innan greiðsluhámarksins.“

„Talið er líklegt“, það er ekki sama og „aldrei mun það gerast“ eða „útilokað er“. Á því er stór (BVG: Stjórnarandstaðan var á móti þessu.) munur. Það er einmitt þessi þáttur sem við þurfum að gera upp við okkur, hv. þingmenn, hvort við viljum hafa, hvort við viljum negla fyrir og segja: Þetta er áhætta sem við teljum ekki rétt að leggja á íslenska þjóð.

Að hafa þessa skoðun er ekki jafngildi þess að menn vilji hlaupa frá verkefninu, að menn vilji ekki taka þátt í því að leysa þetta mál eða að menn hafi grafið sig niður í pólitískar skotgrafir. Ég lít svo á að einmitt hið andstæða hafi gerst þegar við gengum frá þessu máli síðast, að menn hafi einmitt komið upp úr pólitísku skotgröfunum og sagt: Þetta er það sem við þurfum að gera. Um þetta náðist samstaða og meiri hluti í þinginu, góður meiri hluti. Hví skyldum við ekki bara endurtaka hann? Hví skyldum við ekki bara segja: Heyrðu, þetta vantar inn? (Gripið fram í.)

Síðan er það hitt (Gripið fram í.) að auðvitað hljótum við að staðnæmast svolítið við það ákvæði sem er í 2. gr. hvað varðar það ef úr því fæst skorið fyrir þar til bærum dómstólum að við eigum ekki að greiða þetta. Það er að mínu mati nokkuð rýrt í roðinu að það eina sem gerist ef það kemur í ljós að við áttum aldrei að borga þetta, ef það kemur í ljós að við höfðum rétt fyrir okkur eftir allt saman, er að við fáum að tala við Breta og Hollendinga. Mér finnst ekki mikil trygging fólgin í því, satt best að segja.

Það undirstrikar enn á ný að hér er um pólitíska lausn að ræða og einmitt af því að þetta er pólitísk lausn en ekki bara venjulegt skuldauppgjör milli tveggja aðila þar sem annar aðilinn skuldar hinum, þar sem vafi leikur á því að um slíka skuld sé að ræða, hefði það verið sanngjörn niðurstaða að mínu mati að við bærum ekki alla áhættuna ein. Við værum búin að teygja okkur eins langt og mögulegt er en áhættan væri líka tekin af Bretum og Hollendingum af því að við höfum ekki viðurkennt þetta og þeir hafa meira að segja sýnt að þeir hafa skilning á því sjónarmiði. Sá skilningur hefði þurft að koma fram með skýrari hætti í þessum samningum þannig að þeir hefðu borið ákveðinn hluta af áhættunni, það væri í raun og sanni pólitísk lausn.

Það sem mér finnst vera vandinn við þetta allt saman er að menn segja að þetta sé pólitísk niðurstaða en niðurstaða málsins sjálfs er eins og við hefðum í raun tapað fyrir dómstólum. Það er niðurstaðan úr því plaggi sem hér er til umræðu.

Ég geri mér grein fyrir því að það verkefni sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir er hvorki létt né einfalt. Við vitum alveg af þeirri pressu sem er t.d. af hálfu alþjóðlegu matsfyrirtækjanna sem hóta Íslandi því að verði ekki gengið frá því að allir þessir peningar verði færðir á skuldahliðina hjá okkur, muni lánshæfismat ríkisins lækka. Auðvitað hefur framkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins valdið alveg gríðarlegum vonbrigðum og sú pressa sem hefur verið sett á íslensk stjórnvöld þar. Þessu held ég að við gerum okkur öll grein fyrir. Það er enginn sem öfundar ríkisstjórnina af því verki að þurfa að fást við þetta. En það er ekki þannig að menn geti sagt, af því að þetta verkefni er svona erfitt, að sú niðurstaða sem hér er hljóti að vera hin endanlega og eina mögulega niðurstaða í málinu. Það liggur líka fyrir, og ég tel að það sé alveg augljóst, að Bretar og Hollendingar hafa ekki áhuga á að fara með þetta í dómsal, það er alveg eðlilegt og ég skil vel þá afstöðu. Þessar þjóðir vilja ekki fara með svona mál inn í dómsalinn og skapa þar með óvissu um innstæðutryggingarkerfið í Evrópu, það er svo mikið undir fyrir þessi ríki.

Þess vegna spyr maður sig hvort við höfum þó ekki haft það sterka stöðu þegar Alþingi hafði samþykkt lögin 28. ágúst, að geta sagt við Breta og Hollendinga: Þetta er það sem er í boði. Það er þetta sem Alþingi réttir til ykkar og þetta er sanngjarn samningur af því að hann gengur út á að við borgum alla skuldina að gefnum ákveðnum fyrirvörum. (Gripið fram í.)

Hver var hin leiðin? Að fara í mál, sem ég tel mjög ólíklegt að Bretar og Hollendingar hefðu gert vegna þess sem ég sagði hér áðan. Hefðu þeir gert það og unnið það hefði niðurstaðan orðið hver? Að við bærum ábyrgð á allri tölunni, sem er sama niðurstaðan og fæst raunverulega úr þessu plaggi hér.

Þá stendur auðvitað eftir það kverkatak sem þessar þjóðir hafa haft á okkur í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að áfram verði komið í veg fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn standi við þau loforð sem hann gaf Íslendingum í gegnum þá samninga sem við gerðum við sjóðinn og það er auðvitað alveg sérstakur kapítuli.

Hér fyrr í dag átti ég orðastað við hæstv. utanríkisráðherra um það mál og það voru mér auðvitað heilmikil vonbrigði að frétta að Ísland hefði aldrei með formlegum hætti sett fram mótmæli við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þau ríki sem þar um véla, hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið fram í þessu máli. Það er ekki viðunandi og það er ekki ásættanlegt fyrir Ísland að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi komið fram með þeim hætti sem hann hefur gert, að hann hafi brugðið sér í innheimtuhlutverk fyrir Breta og Hollendinga. Það verður að segjast eins og er, af því að ég hef ekki verið í hópi þeirra sem hafa verið tilbúnir til að trúa hverju sem er upp á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og stundum er talað um að menn hafi kannski gert þeim sjóði rangt til í umræðunni, að eftir að hafa fylgst með því hvernig þessi sjóður hefur starfað hér verð ég að segja að það renna á mig tvær grímur.

Ég er ekki í hópi þeirra sem vilja að við segjum bless við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hættum samstarfi. En ég tel að það sé nauðsynlegt að við látum í okkur heyra, að það liggi fyrir með skjalfestum hætti að Ísland var ekki sátt við hvernig að þessum málum var staðið. Og síðan að við endurskoðum nú þá áætlun sem liggur fyrir sjóðnum, þ.e. efnahagslega þáttinn, ræðum við sjóðinn um það hvernig við getum gert þetta betur. Það er alveg augljóst í mínum huga að það plagg sem liggur fyrir þarfnast lagfæringar við.

Þetta eru meginatriði málsins að mínu mati, frú forseti. Enn og aftur vonast ég til þess að í meðförum fjárlaganefndar muni þetta frumvarp verða bætt, að staðið verði þannig að málum að þeir fyrirvarar sem náðist svo góð samstaða um á Alþingi í ágústmánuði komi aftur inn og að ekki verði lagt af stað með þá áhættu sem búið er að byggja inn í þetta frumvarp.