138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér stíg ég í ræðustól enn einu sinni út af þessum Icesave-ósóma. Það sem ég ætla mér að gera er að tala um tvo fyrirvara sem voru samþykktir í sumar, annars vegar um fyrirvara sem hefur verið kenndur við Ragnar Hall og hins vegar um hinn svokallaða efnahagslega fyrirvara. Svo virðist sem ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi þetta og mig langar til þess að rekja aðeins hvað ég á við með því.

Fyrst ætla ég að fara aðeins yfir hverjar þessar skuldbindingar okkar eru. Heildarfjárhæð skuldbindinganna er 705 milljarðar króna sem við byrjum að greiða af árið 2016. Það er óvíst hversu hár höfuðstóllinn verður árið 2016, höfuðstóllinn sem við munum greiða af með vöxtum, það fer allt eftir endurheimtuhlutfallinu af eignum Landsbanka Íslands.

Í upphaflegu frumvarpi er gert ráð fyrir 75% innheimtum sem þýðir, að öðru óbreyttu, 415 milljarða í höfuðstólsskuldbindingu árið 2016. Ef innheimtur eru 90% eru það 309 milljarðar, ef þær eru 95% er skuldin 274 milljarðar og ef allt fæst upp í kröfurnar stendur skuld okkar Íslendinga í 239 milljörðum árið 2016.

Þumalputtareglan er að skuldbinding okkar lækkar um 7 milljarða við hvert 1% sem við innheimtum af eignum. Síðan var, til að girða fyrir það að þetta mundi setja okkur í þrot, búinn til efnahagslegur fyrirvari sem gekk í meginatriðum út á það að það sem við mundum greiða væri í hlutfalli við aukningu landsframleiðslunnar. Mig langar að fara nákvæmlega ofan í hvað átt er við með þessum fyrirvara og þá ætla ég að byrja á því að fara ofan í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Reiknireglan miðar við að Icesave-skuldbindingin sé greidd að fullu gangi forsendur Seðlabankans eftir varðandi hagvöxt, gengi og endurheimtur.“

Síðan segir:

„Hámarksgreiðslan er fundin þannig að reiknað er fast hlutfall af mismun VLF á viðkomandi ári og VLF árið 2008 …“

Þetta hefur þó nokkuð mikla þýðingu, nákvæmlega þetta sem ég var að lesa. Segjum sem svo að árið 2008 sé landsframleiðslan 1.000. Segjum síðan að 2016, þegar við eigum að byrja að greiða af skuldbindingunni, hafi verið svo mikil óáran að landsframleiðsla hafi lækkað niður í 800, eða segjum að það hafi verið árið 2015. Nú verður hagvöxtur árið 2016 upp á, segjum, 6% og þá hækkar landsframleiðslan upp í 840 — og hvað greiðum við mikið? Ekki neitt. Landsframleiðslan 2016 er nefnilega lægri en landsframleiðslan 2008. Þessu er búið að kippa úr sambandi. Eins og þetta er núna borgum við fast hlutfall af hagvextinum og í þessu ímyndaða dæmi mínu áðan hefðum við borgað 6% af 40 milljörðum. Þetta er gjörbreyting og þetta er nýtt innlegg í það að ekki einungis vextirnir eru undanskildir þessum efnahagslega fyrirvara, heldur líka það að ef hérna verður óáran næstu árin þannig að landsframleiðsla dragist saman, sem vel getur orðið, sérstaklega ef við tökum tillit til atvinnustefnunnar sem á að fara að reka núna, er búið að kippa þessum fyrirvara úr sambandi. Þetta er grafalvarlegt mál og þetta þarf að skoða. Það er greinilegt að stjórnarflokkarnir hafa ekki gert sér grein fyrir þessu.

Hitt sem mig langar til að tala um er hið svokallaða Ragnar Halls-ákvæði, öllu heldur hvað átt er við með því. Það er því miður mjög tæknilegt en ég tel að samt sé rétt að ég reyni að stauta mig í gegnum að útskýra það fyrir þingheimi. Það hefur gríðarlega mikla þýðingu líka.

Í lögunum um tryggingarsjóðinn stendur skýrum stöfum að enginn fái greitt úr honum nema afsala kröfu sinni á hann. Tryggingarsjóðnum ber þá að greiða innlánsþega heildarfjárhæð kröfunnar til baka eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til, að lágmarki 20.887 evrur, þ.e. ef einhver ætlar að gera kröfu á sjóðinn um að fá þessar 20.887 evrur að lágmarki er hann búinn að hafna frekari kröfum.

Þetta fyrirkomulag tryggir að ekkert álitamál er um forgang innlánskrafna Landsbankans því að íslenski tryggingarsjóðurinn er hér eini beini kröfuhafinn vegna innlánanna í heild. Þessu hefur verið breytt.

Ákvæði þessara laga voru í gildi þegar breska fjármálaeftirlitið hafði til umsagnar umsókn Landsbankans um stofnun útibús og voru einnig í gildi þegar Landsbankinn féll. Þau eru reyndar enn í gildi.

Ef við snúum okkur að Icesave-samningnum sjálfum samþykkir íslenski tryggingarsjóðurinn þar að taka við innlánskröfum að hluta — bara að hluta. Það er ekki bara að hann sætti sig við að hann einn sé með kröfuna, heldur gerir hann ráð fyrir því að hollenski og breski innlánstryggingarsjóðurinn sé líka með kröfu. Íslenski tryggingarsjóðurinn er þá jafnrétthár þeim breska og hollenska sem stafar af því að breski innstæðutryggingarsjóðurinn og hollenski innstæðutryggingarsjóðurinn greiða út meira en sá íslenski, þ.e. lágmarkið sem er 20.887.

Þessi gjörningur er merkilegur fyrir þær sakir að þetta er hið eiginlega framsal réttinda til tryggingarsjóðsins, óháð því hvort sjóðurinn hafi beina lagaheimild til að ábyrgjast lágmarksgreiðsluna á móti slíku hlutaframsali eða ekki.

Samkvæmt lögum hefur sjóðurinn enga sérstaka heimild til að taka við bútaðri kröfu, þ.e. hann hefur ekki heimild til að taka við nema allri kröfunni. Krafan skal framseld að fullu eða framseld með þeim hætti að sjóðurinn sé jafn vel settur og um fullt framsal væri að ræða, enda skuldar sjóðurinn kröfuna að fullu að framsali loknu. Óhjákvæmilega veltir maður því fyrir sér hvort þessi gjörningur sé einfaldlega ólöglegur, hvort þarna hafi farið fram ólöglegt athæfi þegar samið var fyrir tryggingarsjóðinn um að sætta sig við hlutakröfu. Hann hafnaði réttindum með því.

Jafnframt mætti gæla við að mögulegt ólögmæti þessa gjörnings mundi tryggja okkur betri réttarstöðu þegar kemur að útgreiðslum Landsbankans. Vandamálið er hins vegar miklu flóknara og það er hannað af það mikilli „snilld“ að manni hreinlega fallast hendur. Út af hverju segi ég það? Vegna þess að þegar kemur að Landsbankanum að greiða greiðslur út til kröfuhafa skoðar hann hvað hefur orðið um upprunalegu kröfuna. Og hún er þá, eins og ég er búinn að rekja hérna, hlutakrafa. Eina skjalið sem lýsir einhvers konar framsali eða uppskiptingu innlána er Icesave-samningurinn sjálfur þar sem tryggingarsjóðurinn samþykkir að taka við uppskiptum og jafnréttháum kröfum, hluta af upprunalegri kröfu í skiptum fyrir að greiða út lágmarksfjárhæðina og fá á sama tíma lán fyrir henni hjá Hollendingum og Bretum.

Landsbankinn er einfaldlega ekki í stöðu til að meta hvort þessi samningur sé óskynsamlegur eða utan lagaheimilda sjóðsins, enda ekki hlutverk hans. Jafnvel þótt Landsbankinn mundi upp á sitt einsdæmi líta fram hjá Icesave-samningnum og greiða greiðslur beint til íslenska tryggingarsjóðsins mundu Bretar og Hollendingar líklegast fara beint í mál og krefjast þess að sjálfu framsalinu, þ.e. Icesave-samningnum, sé fylgt, enda á tryggingarsjóðurinn engin réttindi umfram það framsal. Hann er búinn að framselja.

Jafnvel þótt slíkt mál mundi enda fyrir EFTA-dómstól, eins og fjallað er um, er ólíklegt annað en að Landsbankinn verði skikkaður til að fylgja undirrituðum samningi kröfuhafa og tryggingarsjóðsins, en ekki þeim tilgátusamningi sem tryggingarsjóðurinn hefði átt að gera í upphafi. Og þetta stafar af því að, ja, ég kem að því á eftir. En það sem núna er búið að gera er að lögbrotið sem var framið í upphafi við það að samþykkja bútaða kröfu er loksins löglegt. Eina leiðin til að hnekkja því væri að fá framsalið sjálft í Icesave-samningnum dæmt ólöglegt og reyna að fá samningnum hnekkt í heild sinni. Það gæti þó verið snúið, samningurinn sjálfur fylgir enskum lögum og hér kemur EFTA-dómstóllinn hvergi við sögu. Það þarf að sækja þessi réttindi fyrir enskum dómstólum. Jafnvel þótt enskur dómstóll mundi kveða á um að framsalið hefði verið utan lagaheimilda sjóðsins mun þéttofið net lagaklækja líklegast tryggja hag Breta og Hollendinga, sama hvernig fer.

Ég bið þingheim afsökunar á því að þetta voru flóknar útskýringar en ráðlegg þeim að fá útskrifaða ræðuna og spá vel í það sem ég var að segja vegna þess að þetta var algjörlega málefnaleg gagnrýni.

Icesave-samningurinn, með breytingum, tekur ekki tillit til þeirra fyrirvara um hagvöxt sem samþykktir voru á Alþingi í lok sumars. Icesave-samningurinn veitir sjóðnum jafnframt engin úrræði til að tryggja lögbundinn forgangsrétt gagnvart Landsbankanum. Eina leiðin til að tryggja forgangsréttinn er að gera það í sjálfu framsalinu, þ.e. Icesave-samningnum sjálfum, en ekki semja eftir á. Við stöndum því frammi fyrir samningi þar sem Bretar og Hollendingar ná að éta kökuna og eiga hana á sama tíma, þvinga tryggingarsjóðinn til að sniðganga lagaheimildir og tryggja sér réttarstöðu gagnvart Landsbankanum sem þeir hefðu aldrei átt kost á samkvæmt íslenskum lögum og Evróputilskipunum. Til að kóróna allt saman hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að veita samningi þessum blessun sína með því að skrifa undir ábyrgð fyrir hönd íslenskra skattborgara sem höfðu ekkert að gera með einkafyrirtækið Landsbankann eða sjálfseignarstofnunina Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Endanlegt ákvörðunarvald liggur hjá Alþingi þar sem hver og einn þingmaður ber þungar byrðar í þessu máli. Ég hræðist þó að samningurinn sjálfur sé það flókinn að endanleg ákvörðun verði einfaldlega tekin á röngum forsendum.

Ég er búinn að rekja hérna tvö mjög flókin álitaefni sem ekki hafa verið til umræðu. Stjórnarliðar hafa hvergi minnst á þau og gera sér alveg örugglega ekki grein fyrir þeim.

Í frumvarpinu sjálfu kemur fram nánast beinum orðum að Íslendingar hafi verið nauðugir kúgaðir til þessara samninga. Undirlægjusemi frumvarpsins er réttlætt með því að samþykki tryggi okkur skammtímalán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nágrannaþjóða. Í stuttu máli, við höfum látið kúga okkur til að geta aukið skuldastöðuna enn frekar.

En ef verið er að kúga okkur á annað borð, væri ekki miklu hreinlegra að virða landslög og skattborgara landsins að fullu en bjóðast þess í stað til að greiða Bretum og Hollendingum nokkurra hundruða milljarða mútugreiðslu til að tryggja vilyrði þeirra gagnvart Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Þá mundum við a.m.k. vita hver raunverulegur fjármagnskostnaður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri, án flókinna lögfræðigjörninga sem ég held að enginn skilji til fullnustu.