138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að elta ólar við orðaleppa og hártoganir hv. þingmanns. En varðandi það sem hún spyr hér um eða ræðir um ferlið í þessu, get ég fullvissað hv. þingmann og þingheim um að farið var nákvæmlega í þetta í samræmi við ákvæði laganna. Öll gögn málsins þýdd og send gagnaðilunum og síðan voru haldnir sérstakir kynningarfundir þar sem embættismenn, lögfræðingar, sem komið höfðu að vinnunni m.a. í sumar, og seðlabankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri til að kynna hina efnahagslegu þætti málsins, fóru og funduðu í Haag með aðilum og síðan nokkru síðar í London, það voru hreinir kynningarfundir. Síðan um hálfum mánuði eftir það bárust fyrstu hugmyndir Breta og Hollendinga að viðbrögðum og þá voru þau viðbrögð samstundis kynnt fjárlaganefnd, forustumönnum stjórnarandstöðunnar og að sjálfsögðu í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Síðan var tekist á um það í framhaldinu sem okkur þótti út af standa og ekki vera fullnægjandi frágangur í þeirra hugmyndum. Það náðist mikilsverður árangur í þeim efnum en ekki fyrr en á lokadögum. Þess vegna tók nú ferlið það langan tíma sem raun bar vitni og í raun og veru var það ekki fyrr en eftir fræga för til Istanbúl og síðan fimmtudaginn næstsíðasta sem loksins komst hreyfing á hluti sem við sættum okkur ekki við að ganga frá öðruvísi en að þeir væru að okkar dómi í fullnægjandi búningi hvað varðaði afgreiðslu Alþingis frá málinu frá því í sumar.

Það er alveg hárrétt, og það hafa nokkrir þingmenn upplýst þann fróðleik á Alþingi í dag, að Alþingi Íslendinga setur lög á Íslandi. Það er gott að það ríkir alveg fullur skilningur á því hér. En það er ekki þannig að Alþingi Íslendinga setji lög sem gilda í öðrum löndum.