138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef mál mitt á því að fjalla aðeins um þau andsvör sem voru áðan vegna þess að þau vekja mér ákveðnar áhyggjur. Við fórum öll sem sitjum hér á þingi í miklar umræður og mikla málsmeðferð á Icesave-málinu svokallaða í sumar sem tók heila tvo mánuði og ég hélt í minni einföldu sannfæringu að menn hefðu lært eitthvað af þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við það ferli. Ég hélt að ríkisstjórnin hefði lært það af þessu máli öllu saman að það borgaði sig ekki að leggja fram á þingi frumvarp án samráðs við þá aðila sem munu fjalla um málið hér, ég hélt einfaldlega að menn væru komnir að þeirri niðurstöðu. En svo er ekki, að því er mér heyrist. Nú er lögð fram gerbreyting á því máli sem Alþingi samþykkti fyrir nokkrum vikum, þar sem fyrirvaralögunum er kollvarpað. Hæstv. fjármálaráðherra túlkar það þannig að hér sé einfaldlega um einfaldar breytingar að ræða. Þann málflutning skil ég einfaldlega ekki og get engan veginn fallist á að þetta séu einfaldar breytingar.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt, og vonast til þess að stjórnarliðar séu mér sammála um það og þeir þingmenn sem sitja hér inni fyrir þeirra hönd, sem eru fjölmargir einmitt á þessari stundu, ætli sér að fara vel yfir málið í fjárlaganefnd. Ég tel gríðarlega mikilvægt að kalla gesti fyrir nefndina. Mikið hefur verið fjallað í dag um svokallað Ragnars H. Halls-ákvæði í samningunum. Ég tel algjörlega augljóst að fara þurfi að vel yfir það vegna þess að það virðist ríkja mikill efi um hvort því hafi verið kollvarpað eða ekki og að mínu mati er svo.

Við getum ekki ætlað okkur að kasta þeirri vönduðu málsmeðferð, sem átti sér stað hér í sumar, fyrir róða, er það, frú forseti?

Ég tel að við verðum að læra af þessu öllu saman og ég taldi einfaldlega að ríkisstjórnin hefði gert það vegna þess að í sumar lagði hún fram þetta frumvarp eftir mikla samningalotu að þeirra mati og því var lofað að hér yrði glæsileg niðurstaða. Lagt var fram þingmál, frumvarp, sem þingið hafnaði einfaldlega. Alþingi Íslendinga sagði: Nei, þetta er ekki boðlegt, við ætlum að breyta þessu. Þá voru smíðaðir hinir svokölluðu fyrirvarar og sett lög frá Alþingi um hvað ríkisstjórnin ætti að gera, hvernig ríkisstjórnin ætti að fara að því að koma okkar sjónarmiðum að hjá Bretum og Hollendingum.

Mig langar að fara aðeins yfir forsöguna.

Nú háttar þannig til, frú forseti, að ég er einn af þeim 27 nýju þingmönnum sem sitja nú á þingi þannig að ég sat ekki hér meðan öll ósköpin dundu yfir í október og meðan fyrstu skrefin voru stigin varðandi lausn þessarar svokölluðu Icesave-deilu. En á fyrra þingi var augljóst að menn voru tilbúnir að leita samninga. Menn mátu það svo að rétt væri að skoða samningaleiðina, einfaldlega til þess að ná einhverri lendingu í þessu máli. Ég kannast ekki við að hafa séð það í þingtíðindum að menn væru tilbúnir að skrifa upp á hvað sem er í slíkum samningum. Nei, frú forseti, lagt var upp með að miðað yrði við hin svokölluðu Brussel-viðmið. Í nefndaráliti meiri hlutans með þingsályktunartillögunni sem samþykkt var á 136. þingi, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Álit meiri hlutans að þetta verði að sjálfsögðu gert í samræmi við stjórnskipulegar kröfur og eðli þeirra samninga sem nást. Þá hefur komið fram af hálfu utanríkisráðherra að utanríkismálanefnd verði upplýst um framgang samningaviðræðna eftir því sem þeim vindur fram ...“

Frú forseti. Síðan gerist það að hér kemur ný ríkisstjórn. Hér verður hin svokallaða búsáhaldabylting og hlutirnir breytast. Ný samninganefnd kemur að málinu, Vinstri grænir komnir í ríkisstjórn með þeim rökum að þeir hafi ekki átt sök á því bankahruni sem hér varð. Gott og vel, það er þeirra afstaða, en þar með taka þeir ábyrgð á þessu máli. Nú má ég, sögðu vinstri grænir, nú skal ég stjórna, sögðu vinstri grænir, og nú vitum við hvernig á að leysa þessi mál. Af þeirri ástæðu bera þeir fulla ábyrgð ásamt Samfylkingunni, sem situr með þeim í þessari ríkisstjórn, á þessu máli. Þess vegna er sá málflutningur sem hefur heyrst hér í dag um að niðurstaða þessa frumvarps sé bara sjálfsögð afleiðing af því hvernig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, sem að því er virðist sat einn í síðustu ríkisstjórn þar sem Samfylkingin kom hvergi að hlutunum miðað við umræðuna, stýrði málum. Vinstri grænir og Samfylkingin hafi einfaldlega verið bundin af þeirri niðurstöðu. Það er alrangt. Nýir flokkar tóku hér við stjórnartaumunum, ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Sú ríkisstjórn hefur farið með völdin frá því í febrúar og hefur haft tök á því og alla burði til þess, að mínu mati, að leiða þessar samningaviðræður með sínum eigin vopnum og sjónarmiðum. En hvar eru þau sjónarmið? Í hverju felast þau? Ja, þau fólust alla vega ekki í því að nota Brussel-viðmiðin sem grundvöll að samningum milli þjóðanna. Þess vegna var frumvarp lagt á borðið hér á Alþingi sem ekki byggði á Brussel-viðmiðunum og þess vegna sagði Alþingi Íslendinga nei. Þess vegna var sumarið notað í þennan langa aðdraganda að fyrirvaralögunum, það er þess vegna. Þingið hafnaði þessum málflutningi og þessum vinnubrögðum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það er einfaldlega niðurstaðan.

Lærdómurinn sem ég talaði um áðan, sem ég hélt að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu dregið af þessu, virðist enginn vera heldur er lagt fram þetta nýja frumvarp sem fjármálaráðherra telur, eins og hér hefur komið fram, fela í sér mjög litlar breytingar á fyrirvaralögunum. En svo er ekki, við munum sjá það á umræðunni sem verður vonandi í kjölfar vinnu fjárlaganefndar í þessu máli. Ég er fullviss um að Alþingi Íslendinga mun ekki leyfa að þau vinnubrögð verði viðhöfð hér að málinu verði flýtt í gegnum fjárlaganefnd án þess að haldnir verði fundir með helstu hagsmunaaðilum og helstu sérfræðingum þjóðarinnar sem lögðu nótt við dag að finna lausnir á þessum málum í sumar. Ég trúi því ekki að þau vinnubrögð verði viðhöfð. Ef svo er, og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sé að hlusta á orð mín og komi hér í andsvar við mig og upplýsi mig um hvort það sé meiningin. Verði vinnubrögðin þau sem ég lýsti, verða vonbrigði mín mikil.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa allt frá því að sumarþing kom saman í maí sagt að þeir ætli að viðhafa ný, opin, lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð. Það er oft fullyrt. Það er vissulega í orði en það er ekki á borði. Við upplifðum það í sumar að keyra átti fyrra Icesave-frumvarpið í gegn án þess að við sem hér sitjum eða almenningur fengjum að sjá sjálfa Icesave-samningana. Það var stærsta hneisan, mundi ég segja, sem varð á þessu sumarþingi. En vissulega vannst sigur í því máli og ríkisstjórnin var neydd til að upplýsa um samningana og birta þá og er það vel. Það sýnir bara að við sem hér stöndum og þeir aðilar sem börðust fyrir því úti í samfélaginu höfum vissulega áhrif.

Við skulum ekki gleyma því að við höfum áhrif vegna þess að við erum enn þá í baráttu. Þessu máli er ekki lokið. Við höfum það enn í hendi okkar að breyta því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram. Við höfum það enn í hendi okkar að fara vel yfir málið og að hindra að lögsagan gagnvart þessu stóra máli færist yfir til Bretlands fyrr en við erum fullkomlega ánægð með hvernig þetta mál verður afgreitt hér. Við þurfum ekki að afgreiða það óbreytt. Ég hvet þingmenn og þjóðina alla til þess að halda vöku sinni.

Vissulega eru allir orðnir þreyttir á því að tala um Icesave. Ég efast ekki um að allir hérna inni væru mjög fegnir ef þeir þyrftu ekki að tala um Icesave nokkrar mínútur í viðbót. Ég er viss um að það er fullkomlega rétt mat hjá mér, en við höfum einfaldlega bara ekki efni á því að hugsa þannig. Við erum kosin á þing til að gæta hagsmuna Íslendinga. Við fjöllum um miklar upphæðir, háar fjárhæðir, sem til stendur að leggja á vinnandi fólk í landinu. Þess vegna ber okkur að sýna þessu máli fulla athygli þótt það sé erfitt og vinna það vel í fjárlaganefnd. Það er skylda okkar. Þó að erfitt sé að hlusta á umræður enn eina ferðina um þetta leiðinlega mál sem allir hérna eru sammála um að er ömurlegt, er það einfaldlega hlutverk okkar að gera það. Til þess erum við kjörin. Það vissum við öll sem hér sitjum þegar við buðum okkur fram í kosningum í vor. Ég hvet þingmenn því til að halda vöku sinni og gefast ekki upp.

Ég held það hafi verið hæstv. utanríkisráðherra sem hélt því fram að lagalegi fyrirvarinn hafi verið styrktur til muna. Ég get ekki séð að það sé rétt fullyrðing hjá hæstv. utanríkisráðherra, ég veit ekki hvort hann sé hér í húsinu til þess að útskýra orð sín fyrir mér.

(Forseti (ÁRJ): Nei.)

Ég bið hæstv. forseta að kanna það fyrir mig.

Eftirfarandi kemur fram í þessum fyrirvara eða þessu ákvæði í 2. mgr. 2. gr., um lagalegu stöðuna, með leyfi forseta:

„Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins, að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt skylda af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr., eða að á öðru aðildarríki EES-samningsins hafi ekki hvílt slík skylda …“

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að hæstv. utanríkisráðherra er ekki í húsinu. Forseti veit ekki hvort hans er vænst, en óskar hv. þingmaður eftir því að kallað verði eftir hæstv. ráðherra?)

Frú forseti. Ég á það lítið eftir af tíma mínum þannig að þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra sé fljótur í förum efast ég um að hann komist í salinn á þremur mínútum. En ég þakka forseta kærlega fyrir að athuga málið fyrir mig.

En ég var hér að fjalla um 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins og þar kemur það fram að ef þessi niðurstaða fæst fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, að okkur Íslendingum hafi í raun ekki borið skylda til þess að greiða þetta, að krafan hafi ekki verið réttmæt, skuli fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna. Ég tel, frú forseti, að hér sé um að ræða breytingu á lagalega fyrirvaranum þannig að hann sé veiktur. Og í rauninni er verið að afsala íslensku þjóðinni þeim rétti að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort íslenska ríkinu beri þessi ábyrgð að lögum. Ég hef virkilegar áhyggjur af þessu, frú forseti.

Mig langar að nota síðustu mínútur mínar hér til þess að fjalla um hvernig farið var með fyrirvaralögin af hálfu ríkisstjórnarinnar, vegna þess að mér virðist — ég vona að það sé ekki rétt hjá mér — að gefið hafi verið talsvert eftir frá þeirri niðurstöðu sem við alþingismenn komumst að og sett var í fyrirvaralögin. Ég hef áhyggjur af því. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að það er gríðarlega mikilvægt að upplýst verði í fjárlaganefndinni hvernig það ferli allt saman gekk fyrir sig.

Nú hefur það komið fram að Bretar og Hollendingar þykja harðir í horn að taka í samningaviðræðum og vissulega er það svo, en það þýðir samt ekki að menn eigi þegar að láta í minni pokann af þeirri ástæðu. Við Íslendingar erum baráttufólk og við eigum ekki að gefa eftir réttindi okkar. Þegar Alþingi Íslendinga er búið að segja nei við ríkisstjórnina, búið að segja nei við því að samþykkja það frumvarp sem lagt var fram hér í vor af þeirri ástæðu að það var ekki fullnægjandi, þjónaði ekki hagsmunum Íslendinga og uppfyllti ekki Brussel-viðmiðin, var ríkisstjórninni að sjálfsögðu skylt að framfylgja þeim lögum sem þar voru samþykkt.

Efnahagslegu fyrirvararnir sem við þingmenn sem hér störfuðum í sumar vorum svo stolt af að hafa „fattað upp á“, eins og börnin segja, virðast hafa verið veiktir mjög. Af því hef ég talsverðar áhyggjur. Það er ekki síst ákvæðið um að vextirnir skuli alltaf greiddir þrátt fyrir að hámarki þeirrar greiðsluskyldu sem við settum inn í efnahagslegu fyrirvarana sé náð, sem vekur mér áhyggjur. Ég vonast til þess að í fjárlaganefndinni verði það reiknað út eins og gert var í sumar og gert spálíkan um það hvernig þetta komi út fyrir okkur, vegna þess að nú er það ljóst að innborganir af sölu eigna Landsbankans koma ekki til næstu árin þar sem Landsbankinn er þrotabú. Skiptastjórnin hefur fullyrt að ekkert verði greitt út úr því fyrr en að öllum dómsmálum varðandi það, varðandi ágreining um hvað eru forgangskröfur og hvað ekki, sé lokið. Slík dómsmál taka tíma þannig að það eru a.m.k. þrjú ár, og þar held ég að ég áætli varlega þar sem engar eignir og engar inngreiðslur verða inn á höfuðstólinn. Þess vegna hef ég gríðarlegar áhyggjur af þeim vaxtakostnaði sem þar fellur til (Forseti hringir.) og ég tel að hann sé eitt af því erfiðasta sem við munum horfa upp á í þessu máli.