138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum hér við 1. umræðu um frumvarp fjármálaráðherra til breytingar á lögum um heimild handa fjármálaráðherra til að ábyrgjast lán tryggingarsjóðs sem, eins og kunnugt er, var rætt hér lengi og ítarlega í sumar. Í þessum umræðum í dag hefur verið komið víða við og ekki alltaf fjallað um efnisatriði málsins. Það er þó það sem við stöndum frammi fyrir, verkefni okkar á þingi núna er að fjalla um þetta mál og spurningin sem þingmenn verða spurðir í lokin er hvort þeir sætti sig við frumvarpið og þær afleiðingar sem samþykkt þess kann að hafa. Pólitískar skylmingar um liðna atburði eru því ekki til þess fallnar að hjálpa okkur að komast að niðurstöðu. Ég ætla í þessari ræðu að fjalla einvörðungu um málið út frá því sem hér liggur fyrir, reyna eftir mætti að varpa ljósi á það og hugsanlega að spyrja spurninga sem ég tel mikilvægt að svör fáist við meðan málið er í meðferð á þingi.

Áður en ég kem að því finnst mér þó rétt að minna á eitt atriði. Það er að Alþingi gekk frá lögum eða heimild til að veita ríkisábyrgð vegna skuldbindinga tryggingarsjóðs hér í lok sumars, 28. ágúst. Það gerðist eftir tveggja mánaða málsmeðferð í þinginu þar sem menn unnu saman að ákveðnum verkefnum þvert á flokka, en auðvitað komu líka upp ágreiningsmál. En allt um það, málið fékk mjög ítarlega og góða meðferð í fjárlaganefnd Alþingis. Það var ítarlega um það fjallað og reynt að kafa ofan í mismunandi þætti þess. Það sem kom út úr því var ákveðin niðurstaða, samþykkt Alþingis á lögum sem meiri hluti þingmanna stóð að, gild lög frá Alþingi.

Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það sem gerst hefur eftir 28. ágúst sé að mörgu leyti í litlu samræmi við það sem Alþingi lagði upp með með samþykkt þessara laga. Í lögunum var fjallað um framhald málsins með þeim hætti og skýrt kveðið á um að ríkisstjórn Íslands bæri að kynna Bretum og Hollendingum þá skilmála, þá fyrirvara, sem Alþingi gerði með lögum við ábyrgðina á þeim samningum sem til umræðu voru. En einhvern veginn hefur framhald málsins borið þess merki að ríkisstjórnin hafi talið að í þessu fælist nýtt samningstilboð af hálfu Íslands því að það sem komið er með í þingið er samkomulag eða ábyrgð vegna samkomulags sem er í mörgum og veigamiklum atriðum, eins og ég kem hér inn á á eftir, frábrugðið þeirri niðurstöðu sem þingið komst að eftir langa og ítarlega málsmeðferð í sumar. Það er sem sagt komið nýtt samkomulag. Forsendurnar fyrir ríkisábyrgðinni eru allt aðrar en þegar Alþingi heimilaði ríkisábyrgð 28. ágúst.

Þetta nefni ég hér vegna þess að við, ýmsir þingmenn, höfðum orð á því í sumar að í stað þess að samþykkja ríkisábyrgðina eins og lagt var upp með hana þá ætti að segja við Breta og Hollendinga að Alþingi gæti ekki fallist á skilyrðislausa ríkisábyrgð og menn þyrftu hreinlega að setjast niður til þess að semja upp á nýtt. Þeirri leið var hafnað á þeirri forsendu að þeir skilmálar sem setja ætti inn væru allir innan marka samkomulagsins frá 5. júní. Það var blásið á þau sjónarmið að um nýtt samningstilboð væri að ræða og allt hefur það nú farið á annan veg.

Svo ég víki að efnisatriðum málsins hafa þingmenn rakið nokkra þætti hér í dag sem í veigamiklum atriðum eru frábrugðnir því sem var í sumar. Nefnt hefur verið að lagalegum fyrirvörum hefur verið breytt með ýmsum hætti. Það verður auðvitað verkefni fjárlaganefndar að fara yfir hvaða áhrif það mun hafa í rauninni, að hvaða leyti réttarstaða Íslands hefur breyst. Ég ætla ekki að leggja gildisdóm á það í þessari ræðu hvort það er til hins betra eða til hins verra. En fjárlaganefnd getur ekki komist undan því að fara yfir það með færustu sérfræðingum að hvaða leyti staða Íslands hefur breyst hvað varðar þessa lagalegu fyrirvara frá því að frá þeim var gengið í sumar. Sama á við um hina efnahagslegu fyrirvara, sem hafa verið meginumfjöllunarefnið hér í dag.

Hér hefur verið vakin athygli á tveimur veigamiklum þáttum sem eru frábrugðnir því sem var í sumar. Annars vegar það að 6% greiðsluhámarkið, sem áður var í lögum en nú er komið inn í samningana. Það gildir ekki um vexti, vextir skulu ávallt greiddir, eins og kemur skýrt fram í þeim textum sem hér liggja fyrir, alveg óháð þeim forsendum sem liggja að baki þessu 6% hámarki. Eins og menn hafa margbent á getur því hæglega komið upp sú staða að þó að efnahagur Íslendinga dragist saman og við upplifum annaðhvort stöðnun eða samdrátt, getur íslenska ríkið orðið skylt til að greiða tugmilljarða króna í vexti á ári. Sú staða getur hæglega komið upp. Og það er mikilvægt að fjárlaganefnd fari vandlega yfir það í yfirferð sinni hvernig þetta getur orðið miðað við mismunandi forsendur, t.d. þær sem varða endurheimt á eignum Landsbankans. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að vonandi verða þær endurheimtur afar góðar en í því eru auðvitað gríðarlega margir óvissuþættir.

Það er líka rétt að benda á, eins og hv. síðasti ræðumaður Unnur Brá Konráðsdóttir gerði, að jafnvel þótt endurheimturnar verði góðar vitum við ekki nákvæmlega hvenær þessar endurheimtur skila sér í kassann. Það er athyglisvert sjónarmið sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir benti á hér að það getur vel farið svo að engar eignir skili sér eða að þær skili ekki tekjum á móti þessum skuldbindingum fyrr en kannski eftir þrjú ár. Mér fannst hún færa ágæt rök fyrir því að það væri veruleg hætta á því. Á meðan munu rúmlega 700 milljarðar safna vöxtum frá 1. janúar 2009. Þar er um að ræða gríðarlega háar fjárhæðir sem munu bætast við höfuðstól lánsins eftir sjö ár og halda síðan áfram að safna vöxtum, sem við þurfum að greiða árlega frá 2016, miðað við efni samninganna. Þetta eru atriði sem er mjög mikilvægt að fjárlaganefnd þingsins fari yfir og fái sérfræðinga til að reikna ýmsa þætti út miðað við mismunandi forsendur, t.d. endurheimtuhlutfallið af eignum Landsbankans, miðað við hvenær líklegt er að þessar eignir muni skila sér inn til búsins og verða þar með þær til ráðstöfunar til þess að lækka skuld Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Það þarf að áætla þessa þætti þegar þeir hafa verið reiknaðir út með mismunandi hætti, út frá áætlunum um efnahagslega þróun hér, sem auðvitað skiptir líka máli.

Enn dreg ég athyglina að þeim veigamikla þætti og þeim veigamikla mun sem er á málinu eins og það liggur fyrir núna og eins og það lá fyrir 28. ágúst hvað efnahagslega fyrirvarann varðar, að óháð öllum efnahagslegum forsendum, óháð því hvort hér á landi mun ríkja hagvöxtur, stöðnun eða samdráttur, verðum við alltaf að greiða vextina, vexti af vöxtum að stórum hluta, sem ég óttast að geti numið tugum milljarða á ári. Og þetta gerist jafnvel þótt hér verði allt pikkfast, stöðnun í efnahagslífinu eða jafnvel þótt samdráttur verði. Við skulum muna að á þessu ári er spáð samdrætti og er útlit fyrir að það geti líka átt sér stað á næsta ári. Við vitum ekkert um framhaldið en ég tek undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni sem sagði fyrr í dag að miðað við þá stefnu sem komið hefur fram hjá núverandi ríkisstjórn eru harla litlar líkur á því að efnahagslífið nái að reisa sig við á næstu missirum, því miður.

Þetta eru atriði sem eru frábrugðin og fjárlaganefnd þarf að bera þau saman og fara yfir atriði varðandi lagalegu fyrirvarana og varðandi efnahagslegu fyrirvarana. Og varðandi efnahagslegu fyrirvarana verða menn líka að taka tillit til þess sem gerist varðandi eftirstöðvar skuldar samkvæmt þessu samkomulagi 2024, það er í einu veigamiklu atriði mjög frábrugðið nú og þegar Alþingi gekk frá málinu 28. ágúst. Þá lá það fyrir að ef eitthvað stæði eftir af skuldinni skyldi vissulega efnt til viðræðna um hvernig framhaldið skyldi vera. Í lögunum sagði hins vegar að ef þær viðræður færu ekki fram eða leiddu ekki til niðurstöðu, áskildi Alþingi sér einhliða rétt til þess að afnema ríkisábyrgðina. Það er ekki inni í málinu eins og það lítur út í dag. Það eru bara sjálfar viðræðurnar og við verðum að treysta á guð og lukkuna og góðan vilja Breta og Hollendinga hvernig slíkar viðræður fara. Þarna er sem sagt ákveðið öryggisatriði farið út úr málinu.

Það þriðja sem ég vildi nefna varðar stjórnskipulega þætti. Ég fæ ekki betur séð en að það atriði sem varðar lagalega fyrirvarann, sem gerir í raun og veru eins og málið lítur út núna í 2. gr., ráð fyrir því að niðurstaða hugsanlega íslensks dómstóls verði bundin af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins eða forúrskurði Evrópudómstólsins, sem sagt að dómsniðurstaða verði bundin af niðurstöðu þessara stofnana. Ég bið menn í fjárlaganefnd að velta því fyrir sér og fá færa sérfræðinga til þess að fara yfir þann þátt, að þetta kunni að stangast á við fullveldisréttinn samkvæmt stjórnarskránni. Ég held að sá þáttur þarfnist talsverðrar skoðunar. Ég ætla ekki að kveða upp úr með það atriði núna en ég held að það sé mikilvægt að fjárlaganefnd leitist við að komast að niðurstöðu í þeim efnum.

Ég vek líka athygli á því, af því ég er að tala um 2. gr. frumvarpsins, að jafnvel þótt slík niðurstaða yrði okkur Íslendingum hagfelld er ekki gert ráð fyrir því að sú hagfellda niðurstaða (Forseti hringir.) hafi bindandi gildi heldur er einungis gert ráð fyrir að þær muni leiða til viðræðna sem fyrr í umræðunni voru kallaðar „kaffi- eða teboð“.