138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan. Mér finnst það ekki sæmandi þingmanni á Alþingi Íslendinga að saka hér nefndarmenn, hv. þingmenn, um samsæri um sérhagsmunagæslu á vettvangi nefndastarfa þingsins. Svona dylgjur eru náttúrlega ekki nokkrum manni bjóðandi og þingmanninum væri sæmandi að biðja alla hlutaðeigendur afsökunar eða draga einfaldlega þessi orð sín til baka.

Það er auðvitað engin skylda okkar að afgreiða þetta mál í dag. Hv. þingmaður talar um hraðann á þessu máli, en það er engin skylda að afgreiða málið í dag. Málið snýst um það hvort við viljum að málið verði að lögum þannig að þeir sem eiga ríkastra hagsmuna að gæta, almenningur í landinu, fái notið úrræðisins, núna 1. nóvember en ekki síðar. Við erum í þessu tilfelli að tala um það að almenningur njóti vafans.

Svo ítreka ég það sem ég sagði: Ég skora á hv. þm. Þór Saari að vera maður að meiri og biðja alla hlutaðeigendur afsökunar á þessum ummælum sínum hér áðan. Að öðrum kosti finnst mér að forsætisnefnd þingsins verði að skoða þessi ummæli.