138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þm. Þór Saari sagði, að mig minnir orðrétt hér áðan, var á þá lund að sú samstaða sem náðst hefði í félags- og tryggingamálanefnd um þetta mál vekti upp grunsemdir um að nefndarmenn ættu annarra hagsmuna að gæta, ættu persónulegra hagsmuna að gæta við málsmeðferð sem varðar hlutabréfakaupendur. Og þetta eru náttúrlega svo makalaus ummæli og yfirgengileg að ég skora á þingmanninn að meta bara mannorð sitt þannig að hann dragi þessi ummæli sín til baka.

Svo virðist þingmaðurinn ekki átta sig á því að skuldir heimilanna í landinu eru skuldir fólks, lifandi fólks sem bíður eftir úrræðum. Við erum að tala hér um löggjöf sem veitir þúsundum manna úrræði sem beðið hefur verið eftir og á sama tíma sláum við þann varnagla að sérstakur starfshópur fylgist með framkvæmd löggjafarinnar og hafi eftirlit með því að hún nýtist eins og til er ætlast af löggjafans hálfu og að hér sé með öðrum orðum viðhöfð hin svokallaða lifandi löggjöf og gefið fyrirheit eða ádráttur um endurbætur ef í ljós kemur að þörf reynist á.

Það er meginatriði þessa máls, við viljum að almenningur í landinu njóti vafans.