138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[14:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Um leið og ég fagna líka samstöðunni og vinnubrögðunum vil ég taka fram að ég styð þetta mál með fyrirvara. Ég styð málið í trausti þess að hér sé um að ræða fyrsta skrefið í aðgerðum til bjargar skuldsettum heimilum á Íslandi. Ég legg áherslu á að farið verði af festu í það að stíga næstu skref sem lúta að því að taka á himinháum höfuðstól íslenskra lána, koma fasteignamarkaðnum af stað aftur, búa til lánamarkað á Íslandi sem er heilbrigður og í anda þess sem gerist á Norðurlöndum, óverðtryggðan, heilbrigðan lánamarkað. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Þórs Saaris í þessum efnum.

Hér er um bráðaaðgerð að ræða. Ég styð hana. Hún kemur til hjálpar íslenskum heimilum en næstu skref þarf að taka. Ég bendi á tillögur Framsóknarflokksins í þeim efnum. Ég vona að væntanlegur starfshópur muni stíga næstu skref hratt og örugglega. Ég styð málið.