138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

79. mál
[15:13]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar að taka til máls við flutning á þessari þingsályktunartillögu um þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Þar sem ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum get ég ekki annað en komið hér og tekið heils hugar undir þetta. Þetta er stórglæsileg tillaga og ég vona að þingheimur taki henni vel og ég sjái hana verða að veruleika.

Það má kannski nefna að ef ekki væri fyrir Heilbrigðisstofnun í Vestmannaeyjum þá efast ég um að ég eða frumburður minn værum í dag á þeim stöðum sem við erum. Og það verður að skoða að það getur orðið einangrun í Vestmannaeyjum bæði vegna ófærðar á flugi og sjó þó að ég geri mér fullar vonir um að með tilkomu Landeyjahafnar muni þær aðstæður breytast mjög.

Það er mjög gott sem hv. þingmenn hafa sagt á undan mér að þetta opnar möguleika einmitt í báðar áttir, ekki bara fyrir Vestmannaeyinga heldur líka fyrir þá sem eru uppi á landi að nýta sér þjónustu stofnana, menntastofnana, heilbrigðisstofnana, opinberra stofnana sem staðsettar eru í Eyjum því það er ansi stutt á milli Landeyja og Vestmannaeyja.

Af því að við höfum verið að ræða fjárlagafrumvarpið og það er mikill niðurskurður fram undan, og ég veit að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er búin að biðja um utandagskrárumræðu um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, þá finnst mér skipta gríðarlega miklu máli þegar verið er að skera niður að við horfum til stofnana út um landið. Ég vil kalla þetta hálfgerða sársaukastiku, sumar milljónir eru dýrari en aðrar. Mig langar að nefna að þar sem ég bý í dag og nýt þjónustu heilbrigðisstofnunar á Patreksfirði að miðað við þær tillögur sem liggja á borðinu í dag þá stefnir allt í að hún verði hreinlega þvinguð í sameiningu við heilbrigðisstofnun á Ísafirði. Þá hef ég einmitt notað það sem dæmi að það sé styttra fyrir mig að sækja þjónustu í mína gömlu góðu heimahaga á heilbrigðisstofnun í Vestmannaeyjum heldur en að fara til Ísafjarðar, því að frá þeim stað þar sem ég bý í dag þá er jafnlangt og frá Vík í Mýrdal til Ísafjarðar yfir vetrartímann. Ég vil því biðja hv. þingmenn sem hér eru staddir í salnum að halda því til haga þar sem ég mun ekki, alla vega eins og staðan er í dag, geta fylgt þessu máli eftir inni í nefnd og við síðari umr.

Mig langaði aðeins, eins og ég sagði í upphafi, til að koma hér upp og lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu og biðja ykkur um að fara með þessi orð mín inn í nefndarstörfin. Ég óska ykkur góðrar helgar.