138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landflutningalög.

58. mál
[15:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir yfirferð hans á þessu frumvarpi sem hér er flutt. Nokkur atriði tengjast því óbeint eins og lækkun flutningskostnaðar og annað þegar rætt er um landflutninga og ég ætla að fara yfir það betur á eftir.

Fyrir það fyrsta spyr hv. þingmaður af hverju það tók svona langan tíma að semja frumvarpið. Það er kannski engin ein skýring á því. Þetta frumvarp var tilbúið til flutnings á þessum tíma fyrir einu ári síðan en þá frestaðist það út af smáóhappi sem varð í efnahagsmálum þjóðarinnar. Alþingi tók að sér ýmis önnur störf og þurfti að ræða þýðingarmeiri mál en þetta og þannig var það geymt. Þetta frumvarp var því tilbúið fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan en menn hafa verið að kíkja á það og gera það betra. Þess má geta eins og kemur fram í athugasemdum að það er samið af starfshópi sem þáverandi samgönguráðherra skipaði eins og þegar hefur komið fram. Í þeim starfshópi sátu Svanhvít Axelsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, Einar Baldvin Axelsson sem fulltrúi flytjenda og Lárus Óskarsson sem fulltrúi kaupenda þjónustunnar, báðir skipaðir af Samtökum verslunar og þjónustu. Þarna er dálítið merkilegur hlutur inni, þ.e. fulltrúi kaupenda þjónustunnar sem kom að þessu og þess vegna er þetta komið fram. Þarna eru fulltrúar hagsmunaaðila og við erum í þessu frumvarpi að festa bætta réttarstöðu, setja skýrari leikreglur. Í raun og veru erum við að setja í frumvarp sem verður vonandi að lögum þær reglur sem greinin hefur notast við undanfarin ár. Hún hefur sjálf sett sér þessar reglur ásamt meiri framtíðarsýn eins og rafrænum fylgibréfum og öðru.

Ég veit ekki til þess að hér séu neinar íþyngjandi aðgerðir sem munu hækka þegar allt of há flutningsgjöld. Ég held að svo verði ekki. Þá kem ég að því sem var meginatriði hv. þingmanns, þ.e. há flutningsgjöld og hvernig lækka megi þau. Því er til að svara, virðulegi forseti, að ég sem hér stend ásamt hv. þingmanni og öðrum þingmönnum landsbyggðarinnar hef oft talað um þessi mál og fundist hægt ganga hvað þetta varðar. Það er í fyrsta skipti í sögu þessarar ríkisstjórnar sem skref hafa verið stigin sem við sjáum þegar að lækka eða koma í veg fyrir frekari hækkun flutningsgjalda.

Þá á ég annars vegar við að koma í veg fyrir frekari hækkun. Í þeim aðgerðum sem gripið var til í sumar í slæmu árferði þar sem við þurftum að hækka álögur á bensín og olíu og annað slíkt var ekki gengið hlutfallslega fram í hækkun á dísilolíu og ekki heldur á þungaskattinum sem flutningafyrirtækin og ökutæki sem eru 10 tonn eða þyngri borga mikið af. Þarna er í fyrsta skipti, virðulegi forseti, aðgerð sem sýnilega á að koma í veg fyrir frekari hækkun og jafnvel lækka flutningskostnað.

Hitt atriðið er það sem margir á hinu háa Alþingi hafa oft talað um að sé vænlegasta leiðin til að lækka flutningskostnað, þ.e. að stytta vegalengdir og bæta samgöngur. Við höfum einmitt séð að það ánægjulega gerðist fyrir hálfum mánuði eða svo að hinn nýi Arnkötludalur fyrir vestan var opnaður í framhaldi af þverun Mjóafjarðar. Þar kallaði ég m.a. í fjölmiðlum og annars staðar eftir mikilli lækkun á flutningsgjöldum frá flutningsfyrirtækjum vegna þess að þarna varð 70 km stytting, um 15% stytting á vegalengdinni frá Reykjavík til Ísafjarðar. Það gerðist, virðulegi forseti. Fyrst boðaði Eimskip 8% lækkun á flutningsgjöldum. Síðan komu Landflutningar – Samskip og gerðu í raun betur, sem var líka svolítið kallað eftir, og buðu 12% lækkun. Þetta eru dálítið mikil tíðindi, virðulegi forseti, fagnaðarefni sem sýnir að ríkið var búið að gera sitt, leggja fram mikla peninga í miklar samgöngubætur sem við sjáum ekki eftir. Við kölluðum eftir þessu og það kom. Þetta vildi ég hafa nefnt hér hvað varðar þessi efni.

Síðan get ég auðvitað komið að umræðunni sem hefur verið í gegnum tíðina um kröfur og tillögur um lækkun flutningskostnaðar og annað. Þær hafa verið ýmsar en af því hv. þingmaður spyr hvað ég ætli að gera í samgönguráðuneytinu hvað varðar að lækka flutningskostnað þá er það á okkar ábyrgð að bæta vegi og stytta vegalengdir eins og ég hef áður nefnt. Hv. þingmaður á þó að vita manna best að flutningsjöfnun er í ráðuneyti sem áður fyrr hét viðskiptaráðuneyti og heitir nú efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Í viðskiptaráðuneytinu hafa ýmsir góðir framsóknarmenn setið til fjölda ára og þar hefur málaflokkurinn verið, þ.e. lækkun flutningskostnaðar, og þar hafa tillögur átt að koma fram um að lækka flutningskostnað. Þar er umsýslan um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara en þær tillögur komu aldrei fram. Þess vegna, virðulegur forseti, er ánægjulegt að það skuli loksins gerast núna í tíð þessarar ríkisstjórnar, annars vegar með þungaskattinn og olíugjaldið og einnig erum við farin að sjá styttingu leiða í samgönguframkvæmdum. Þetta vildi ég einnig nefna hér.

Hv. þingmaður nefndi póstflutningana en um þá gilda auðvitað sérlög.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður út í sjóflutninga. Það hefur verið áhugamál mitt og margra annarra til langs tíma að athuga hvort hægt sé að koma sjóflutningum á aftur, lækka þar með flutningskostnað og spara slit á vegum og taka þungaflutninga í sjóflutninga. Það er ánægjulegt að segja frá því að um þessar mundir er að fara í gang síðasta nefndarvinnan, og ég vil halda því fram að það verði vonandi síðasta nefndin, hvað varðar hvort það sé hagkvæmt og við getum komið á sjóflutningum á Íslandi aftur. Sú nefndarvinna fer í gang á næstu dögum. Nefndin verður skipuð fulltrúum frá Vegagerð og Siglingastofnun og Tómas Möller rekstrarhagfræðingur, ef ég fer rétt með hans starfsheiti, mun stýra þeirri nefnd vegna þess að hann hefur töluvert mikið unnið við þessa vinnu og hefur átt nokkra fundi með mér í ráðuneytinu þar sem farið hefur verið yfir þetta. Ég vil trúa því að þetta sé síðasta yfirferðin. Þar mun koma fram hvort hægt verði að taka upp nýja sýn og nýja flutningatækni eða hvort við þurfum einfaldlega að játa okkur sigruð gagnvart því að taka upp strandsiglingar. Ég vil ekki trúa því en hins vegar hef ég alltaf verið viss um það, virðulegi forseti, og byggi ég það á vinnu minni undanfarin ár við að kynna mér sjóflutninga og hvernig þeir ganga fyrir sig, að við munum aldrei ná að taka sjóflutninga upp öðruvísi en með ríkisstyrk til þess aðila sem býður best, svipað og flug til ákveðinna staða, ferjusiglingar, rútur o.fl.

Af því ég nefni ferjusiglingar þá renna þær flestar út eða eru með nýjan samning í janúar 2011. Ef út úr þessu kemur fýsilegur kostur hvað varðar sjóflutninga og við getum fært til fé í því skyni að styrkja sjóflutninga held ég að sniðugt sé að bjóða það út á sama tíma og með ferjusiglingunum. Í því kunna að leynast alls konar samlegðaráhrif.

Þá held ég, virðulegi forseti, að ég hafi farið yfir flest það sem hv. þingmaður fjallaði um í ræðu sinni og svarað þeim spurningum sem hafa komið fram, ásamt því að veita frekari upplýsingar um það sem hér hefur komið fram, t.d. það sem þó hefur verið gert hvað varðar lækkun flutningsgjalda og þau ánægjulegu tíðindi um flutningsgjöld vestur á firði sem við vonandi sjáum ná til annarra staða á landinu með styttingu vegalengda.