138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[16:43]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska fjármálaráðherra til hamingju með framlögð frumvörp, enn eitt ánægjulega skrefið sem stigið hefur verið á undanförnum dögum. Ég held að við séum einmitt að horfa til þess að styrkja okkar sprota sem eru hvað mikilvægastir í þeirri gerjun sem atvinnulíf okkar er að fara í gegnum um þessar mundir.

Ég er með spurningu til hæstv. ráðherra. Mig langar að forvitnast eilítið um hvernig hann horfir á áhrif frumvarpsins á hlutabréfamarkaðinn hér á landi og hvort menn gætu hugsað sér að þessu samhliða værum við að horfa á einhvers konar leið fyrir almenning, sem kannski hefur ekki bein tengsl inn í tiltekin sprotafyrirtæki eða nýsköpunarfyrirtæki, sem geti með einhverjum hætti tekið þátt í þessari breytingu með því að taka þátt í opnum markaði, sem væri t.d. undir stjórn Kauphallar, en gerði ekki jafnríkar kröfur á fyrirtækin og við erum að gera í núverandi Kauphöll. Fyrirtækin gætu því með einhverjum hætti boðið sig fram til handa almenningi til þess að hinn almenni borgari, sem mundi gjarnan vilja taka þátt í slíkri uppbyggingu, gæti það án þess að eiga þá bein eða persónuleg tengsl inn í þau fyrirtæki sem hann mundi taka þátt í.

Ég vil helst forvitnast um þessi atriði og hvort hæstv. ráðherra eða ráðuneytið hefði með einhverju móti hugsað þetta. En þar sem ég sit í efnahags- og skattanefnd hlakka ég til að takast á við þetta verkefni.