138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá fínu ræðu sem hann hélt. Það er alveg rétt hjá honum að ég kom hingað og hélt, eins og hv. þingmaður sagði, eina af mínum betri ræðum — ég vil nú ekki gefa henni þá einkunn — um þær ágætu tillögur sem Framsóknarflokkurinn flutti á þinginu fyrr í vetur. Sumar af þeim hafa, ef allt er grannt skoðað, með einhverjum hætti ratað inn í aðgerðir ríkisstjórnarinnar eins og svo margt sem Framsóknarflokkurinn hefur gert.

Ég hef t.d. haldið ræður hérna í tilefni af allt öðru máli, Icesave, þar sem ég hef sagt að Framsóknarflokkurinn megi ekki vanmeta sjálfan sig, hann megi ekki vanmeta málflutning sinn í því máli. Þó að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi greitt atkvæði gegn því máli á sínum tíma og líklegt sé að þeir geri það líka þegar málið kemur aftur til umræðu, höfðu þeir sannarlega áhrif með málflutningi sínum.

Spurningin er um þetta mál sem við ræðum nú: Hvort kom á undan eggið eða hænan? Þetta er flott mál sem hér liggur fyrir, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Það vill svo til að margt af því sem maður getur lesið í frumvarpinu eru hugmyndir sem hafa verið á kreiki töluvert lengi. Nú gæti ég haldið því fram að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hefðu gengið í smiðju hjá fyrrverandi iðnaðarráðherra til að sækja þær. Ég ætla ekki að gera það vegna þess að þær hugmyndir sem ég lagði fram á sínum tíma og tengjast þessu voru líka sóttar í hugmyndabrunn sem forveri minn í því embætti, Valgerður Sverrisdóttir, skildi eftir sig eins og svo margt annað ágætt í iðnaðarráðuneytinu.

Ég vil hins vegar segja varðandi það mál sem hér liggur fyrir að í tíð minnihlutastjórnarinnar, sem Framsóknarflokkurinn studdi, var samþykkt að ráðast í breytingar og leggja þær fram í gervi frumvarps á þessu háa Alþingi. Sú vinna er í gangi og þarna hugsa miklir hugsuðir sömu hugsunina — ég er ekki í þeim hópi (Forseti hringir.) en ýmsir í mínum flokki — og hv. þingmaður. (Forseti hringir.) Hérna held ég að við getum því orðið samferða.