138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson orðar það svo að hér eigi að fara að keyra í gegn eitthvert mál. Alþingi ákvað í haust að samþykkja ákveðna fyrirvara. Þeir gengu ekki eftir að því leyti að mótaðilarnir, sem í þessu tilfelli eru Hollendingar og Bretar, féllust ekki á þá í einu og öllu og þess vegna er málið komið aftur inn í þingið. Í þeirri umræðu allri hefur það verið eitt af deiluefnunum hvaða máli skipti hvort við samþykkjum Icesave eða ekki. Hefur það einhverjar afleiðingar, getum við beðið með það eða hver verða viðbrögð alþjóðasamfélagsins?

Ég hef alltaf talað fyrir því að eina leiðin út úr þessum vanda sé að ganga frá samningum, að ljúka málinu — og því fyrr, því betra. Þess vegna get ég alveg staðfest hér að þó að ég hafi notað þau orð að við gætum fellt út ríkisábyrgðina væri það í mínum huga vonlaus aðferð. Við getum ekki umgengist alþjóðasamskipti með einhliða ákvörðunum, við verðum að semja. Það er það sem við erum að reyna að gera, búin að vera að reyna að gera. Nú er komin viðbótarlausn í sambandi við Icesave-málið og það er okkar, Alþingis sem heildar, að taka ákvörðun um það hvort við sættum okkur við þá niðurstöðu sem þar er komin og munum afgreiða hana fyrst í fjárlaganefnd og síðan í Alþingi með þeirri niðurstöðu sem þingið velur.

Ég teldi það mikinn ábyrgðarhluta að leysa ekki málið til langs tíma. Aftur á móti hef ég vakið athygli á því oft áður að ef við lendum í öllum þeim hremmingum sem menn hafa látið sér detta í hug að við gætum lent í munum við örugglega fá tækifæri í alþjóðasamfélaginu til að ræða málin upp á nýtt. Í allri umræðunni hafa menn reynt að tína fram alla hugsanlega möguleika um það hvernig samfélagið muni líta út eftir sjö eða 15 ár og ég hef í sjálfu sér eiginlega ekki haft þær væntingar, hvorki til mín né annarra þingmanna, að við getum með slíkri nákvæmni spáð fyrir um hvernig staðan verður þá. Ég hef hins vegar haft vissu fyrir því í mínum huga að menn muni hjálpa okkur ef við lendum í þeim vandræðum sem menn hafa spáð, sumir hverjir. (Forseti hringir.) Ég sé ekki þessi vandamál fyrir mér. Við eigum að ljúka þessu með samningum. Ég mæli ekki með ofbeldi, hvorki frá þinginu íslenska né öðrum aðilum (Forseti hringir.) í sambandi við lausn á því máli.