138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu. Vegna þrenginga í þjóðarbúskapnum er ljóst að grípa verður til aðhaldsaðgerða í rekstri heilbrigðiskerfisins, nýta fé skynsamlega og aftengja sjálfvirka útgjaldaþróun í kerfinu. Að þessari vinnu við forgangsröðun og endurskipulagningu í heilbrigðisþjónustunni verður að leiða saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga og ná sem mestri sátt um markmið og leiðir. Tryggja verður að heilsugæslan verði undirstaða heilbrigðisþjónustunnar og að hún tengist öðrum forvarnaverkefnum, svo sem manneldis- og lýðheilsuverkefnum, og að aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu standi öllum til boða og áhersla verði lögð á heilsuvernd og forvarnir. Unnið verði að því að þróa valfrjálst stýrikerfi sem leiði til hagkvæmustu úrræða hverju sinni. Nauðsynlegt er að sérhæfð heilbrigðisþjónusta verði aðgengileg öllum óháð búsetu og efnahag.

Mikilvægt er að leggja aukna áherslu á eflingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu við aldraða. Það eykur lífsgæði þeirra og er öllu samfélaginu til hagsbóta. Einnig að hjúkrunarrými standi þeim til boða sem þurfa á því að halda. Störf heilbrigðisstétta eru ómetanleg og í þessum þrengingum verður að gæta þess að ekki verði of nærri þeim gengið í kjörum og vinnuálagi. Setja verður í forgang að verja störfin eins og kostur er.

Öflugt velferðarkerfi er ein af forsendum alhliða atvinnuuppbyggingar í landinu. Traustar heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið eru íbúum þar forsenda búsetuöryggis og að fólk geti haldið áfram að búa í sinni heimabyggð á fullorðinsárum. Afleiðingar efnahagshrunsins eru m.a. heilsubrestur margra sem standa höllum fæti og annarra áhættuhópa sem veikir eru fyrir. Tryggja verður að allir þeir einstaklingar sem þurfa á þjónustu heilbrigðis- og velferðarkerfisins að halda fái hana þegar þeir þurfa á henni að halda og þétta verður öryggisnetið (Forseti hringir.) og tryggja að þar falli enginn útbyrðis.