138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri freistandi að blanda sér í þessa skemmtilegu deilu sem hér upphófst um hverjir tilteknir þingmenn eru, en ég ætla að láta það liggja milli hluta að sinni. En ég ætla að taka undir það í ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem ég var sammála og var nákvæmlega það að athygli vekur þegar fjárlög eða fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár er skoðað að dómsmálaráðuneytið virðist öðrum ráðuneytum framar hafa tekið alvarlega þá stefnu sem ríkisstjórnin markaði í sambandi við hagræðingu. Satt að segja eftir stutta yfirferð um ráðuneytin sýnist mér dómsmálaráðuneytið vera eina ráðuneytið t.d. sem gerir ráð fyrir því að skera niður á aðalskrifstofu sinni svo einhverju nemi, um 11% ef ég man rétt. En mörg ráðuneytanna gera hins vegar ráð fyrir aukningu á framlögum til aðalskrifstofa ráðuneytanna, sem er athyglisvert í ljósi þess að á sama tíma eru þessi sömu ráðuneyti, sumir ráðherrar, að gera miklar kröfur til undirstofnana sinna sem sumar hverjar hafa mjög mikilvægt hlutverk. Þetta er athyglisvert. Ráðuneytið á hrós skilið fyrir þetta.

Sá böggull fylgir þó skammrifi, eins og vakin hefur verið athygli á, að eins og ráðuneytið stendur sig vel í hugmyndum sínum um hagræðingu og sparnað er verið að skera mjög nærri mikilvægum málaflokkum eins og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.

En það var eitt sem ég hnaut um í ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur þegar hún sagði að hún hefði verið ósátt við þá ákvörðun að gera 10% hagræðingarkröfu til málaflokka dómsmálaráðuneytisins sem telja má til grunnþjónustu, en svo sagði hún: „Það er ekki veruleikinn sem við búum við.“ Og talaði um það eins og búið væri að ákveða fjárlögin. Ég vek athygli á því að fjárlagaumræðan er enn í fullum gangi, málin eru (Forseti hringir.) til vinnslu í fjárlaganefnd og þar er auðvitað hægt að taka ákvarðanir um framlög til málaflokka (Forseti hringir.) óháð því hvað kemur fram í áliti ríkisstjórnarinnar.