138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú breyting sem þetta frumvarp kveður á um, að dómstólaráð fái það verkefni að ákveða hvar starfsstöðvar dómstóla eru, er gríðarlega viðamikil breyting sem ég tel að þurfi að skoða mjög nákvæmlega í hæstv. allsherjarnefnd. Í núgildandi lögum um dómstóla er það löggjafinn sem ákveður að héraðsdómarar skuli sitja á ákveðnum svæðum á landinu. Ég tel að með því að færa slíkt ákvörðunarvald til stjórnsýslustigs sé verið að stíga mjög stórt skref sem menn þurfi að íhuga mjög rækilega og ég mun alla vega beita mér fyrir því í hv. allsherjarnefnd að þetta verði skoðað sérstaklega vel og ég geld mikinn varhug við þeirri tillögu sem þarna er lögð fram.

En hvað annað varðar þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er raunverulegt markmið með þessari lagasetningu? Vegna þess að nú höfum við talað um það nokkuð hér í dag hver fjárhagsstaða dómstóla sé og hvernig fara skuli með réttarvörslukerfið. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að menn skuli fara gætilega í það að ganga harkalega fram í því að ganga mjög nærri réttarvörslukerfinu. En hvert er faglegt markmið með þessari löggjöf? Vegna þess að með því að flytja héraðsdómara frá landsbyggðinni til Reykjavíkur held ég að menn séu að stíga mjög stórt skref aftur á bak þegar horft er til réttarvörslukerfis um hinar dreifðu byggðir og ég býst við því að áhrifin á þau samfélög sem þessir dómstólar hafa nú hjá sér muni verða umtalsverð.

Þannig að mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvert hið faglega markmið er? Vegna þess að ef það er svo að menn halda að þessi breyting geti létt á Héraðsdómi Reykjavíkur vegna bankahrunsins, þá tel ég það sérstakt úrlausnarefni sem við þurfum að taka á tímabundið. Ég held ekki að við eigum að ganga mjög hratt í það að taka afdrifaríkar ákvarðanir hvað varðar dómstólana í þessu landi og leggja niður gríðarlega mikilvægar stofnanir úti um allt land, sem ég hygg að menn ættu nú að kynna sér mjög vel áður en slík skref eru stigin.